Fótbolti

Segir að Robert Lewandowski sé í flokki með þeim Messi og Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Lewandowski í leiknum á Stamford Bridge í gær.
Robert Lewandowski í leiknum á Stamford Bridge í gær. Getty/Stephanie Meek

Robert Lewandowski hefur skorað í öllum leikjum sínum með Bayern München í Meistaradeildinni á þessu tímabili og var með mark og tvær stoðsendingar í 3-0 sigri á Chelsea í sextán liða úrslitunum í gærkvöldi.

Robert Lewandowski er nú kominn með 11 mörk í 6 leikjum í Meistaradeildinni á leiktíðinni og alls 39 mörk í 33 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu.

Bæjarar hafa unnið alla Meistaradeildarleiki sína á leiktíðinni og þar hefur frammistaða Lewandowski haft mikið að segja.

Liðsfélagi hans í Bayern telur að pólski framherjinn eigi skilið að vera nefndur í sömu mund og þeir Lionel Messi og Cristiano Ronaldo þegar talið berst af bestu sóknarmönnum heims.



„Hann er heimsklassa leikmaður og heimsklassa framherji,“ sagði David Alaba um Robert Lewandowski eftir leikinn á Brúnni í gær.

„Við vitum öll að hann getur skorað mörk en í kvöld sýndi líka að hann getur gefið stoðsendingar líka. Við vitum að hann er mjög mikilvægur fyrir okkar lið og við erum þakklátir fyrir að haga hann í okkar hóp,“ sagði David Alaba.

Robert Lewandowski lagði upp tvö mörk fyrir Serge Gnabry áður en hann innsiglaði sigurinn með þriðja marki Bæjara.

„Hann sýnir hversu góður hann er á hverri helgi. Hann er einn af þeim bestu og kannski besti framherji heims í dag. Hann skorar mörk í næstum því öllum leikjum og auðvitað finnst mér að hann sé í flokki með þeim Messi og Ronaldo,“ sagði Alaba.

Hér fyrir neðan má sjá mörk Bayern München í leiknum.

Klippa: Mörkin og atvikin úr leik Bayern og Chelsea



Fleiri fréttir

Sjá meira


×