Íslenski bílaframleiðandinn Ísar tekur þátt í landsamgönguverkefni á Grænlandi. Jepparnir frá Ísar eru sérhannaðir fyrir samgöngubætur án innviðauppbyggingar.
Hugmyndin lýtur að því að gera samgöngur mögulegar þar sem nauðsynlegt er að komast á milli staða án þess að þurfa að ráðast í kostnaðarsama innviðauppbyggingu. Á þeim slóðum sem stendur til að taka Ísar í notkun á Grænlandi væri dýrt og erfitt að ráðast í innviðaframkvæmdir auk þess sem erfitt er að halda vegunum greiðfærum vegna veðurs.

Verkefnið í Grænlandi
Ætlunin er að skila þremur bílum í landsamgönguverkefnið í Grænlandi um mitt næsta ár. Þar er um að ræða áætlanir um að setja upp almenningssamgöngur án þess að þurfa að leggja veg.
Veglagning sjálf er ekki umhverfisvæn og þá síður umferðin sem kynni að fylgja ef vegur yrði lagður. Þess vegna er að sögn framkvæmdastjóra Ísar, Ara Arnórssonar umhverfisvænasti kosturinn að koma á samgöngum án veglagningar.
„Í stóra samhenginu er betra að aðlaga bílana að náttúrunni en náttúruna að bílunum,“ sagði Ari.
Ísar fékk heimsókn í janúar á þessu ári þar sem sjóðsstjórar og sveitarstjórnarmenn frá Danmörku og Grænlandi komu að skoða aðstöðu Ísar og bílinn sjálfan. Heimsóknin leiddi til þess að undirritað var samkomulag um framangreindar veglausar landsamgöngur. Þetta verkefni er fyrsta sinnar tegundar í Grænlandi.