Erlent

Minnst 24 látnir eftir hvirfilbylji í Tennessee

Samúel Karl Ólason skrifar
Hvirfilbylnum í Nashville fylgdi vindhraði sem samsvarar rúmum 70 metrum á sekúndu.
Hvirfilbylnum í Nashville fylgdi vindhraði sem samsvarar rúmum 70 metrum á sekúndu. Vísir/AP

Minnst 24 eru látnir og þar á meðal börn eftir að öflugir hvirfilbyljir ollu gífurlegum skaða í Tennessee í Bandaríkjunum í gær. Ríkisstjóri Tenessee hefur lýst yfir neyðarástandi og sent þjóðvarðliðið til aðstoðar björgunaraðila þar sem margir eru enn týndir og ástandið víða slæmt.

Hvirfilbyljirnir fóru mjög hratt yfir. Randy Porter, bæjarstjóri Putnam, sagði AP fréttaveitunni að margir hafi verið sofandi þegar hvirfilbyljirnir lentu. Fólk hefi ekki haft tíma til að leita skjóls.

Einn slíkur hvirfilbylur olli skaða á um 16 kílómetra löngum kafla í Nashville í Tennesee þar sem hann fór meðal annars yfir miðbæ borgarinnar. Minnst 30 byggingar skemmdust og þar með talin sögufræg kirkja.

Hvirfilbylnum í Nashville fylgdi vindhraði sem samsvarar rúmum 70 metrum á sekúndu. Hvirfilbyljir hafa ekki valdið svo miklum skaða í Tennessee frá 2011. Þá er rafmagnslaust víða og vegir ófærir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×