Innlent

Búið að ná manninum undan plötunni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Mosfellsbæ í dag.
Frá vettvangi í Mosfellsbæ í dag. vísir/vilhelm

Búið er að ná hinum manninum sem lenti undir steyptri gólfplötu á byggingarsvæði við Sunnukrika í Mosfellsbæ í dag undan plötunni. Hann hefur verið fluttur á spítala en annar maður sem lenti einnig í slysinu náðist fyrr í dag undan plötunni og var fluttur á spítala.

Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að um erlenda starfsmenn sé að ræða. Ekki sé hægt að veita upplýsingar um líðan þeirra en slysið var mjög alvarlegt og viðbragðið mikið.

Hann segir vinnu á vettvangi nú rétt að ljúka og að engin vinna sé á svæðinu eða verði á svæðinu á næstunni enda sé vettvangurinn hættulegur. Rannsókn málsins er á byrjunarreit en auk lögreglu skoðar Vinnueftirlitið hvað gerðist.

Mennirnir tveir voru við vinnu þegar steypt gólfplata féll á milli hæða á byggingarsvæðinu. Tilkynning um slysið barst klukkan 14:30 og fór fjölmennt lið viðbragðsaðila þegar á vettvang. Eftir því sem fréttastofa kemst næst á byggingin þar sem slysið varð að hýsa heilsugæsluna í Mosfellsbæ.


Tengdar fréttir

Alvarlegt slys á byggingasvæði við Sunnukrika

Alvarlegt slys varð við Sunnukrika í Mosfellsbæ nú á þriðja tímanum í dag. Að sögn Valgarðs Valgarðssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, féll gólfplata í byggingu við götuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×