Handbolti

Haukur með slitið krossband og tímabilið búið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Þrastarson fór til Kielce frá Selfossi í sumar.
Haukur Þrastarson fór til Kielce frá Selfossi í sumar. vísir/vilhelm

Haukur Þrastarson, leikmaður Kielce og íslenska handboltalandsliðsins, er með slitið krossband. Þetta kom í ljós eftir segulómskoðun í dag.

Haukur meiddist í leik Kielce og Elverum í Meistaradeild Evrópu á fimmtudaginn og nú er ljóst að hann verður frá í tæpt ár.

„Hann sleit fremra krossband og er með rifinn liðþófa í vinstra hné,“ sagði Örn Þrastarson, bróðir Hauks, í samtali við Vísi í dag.

Að sögn Arnar kemur Haukur heim til Íslands á næstu dögum, fer í aðgerð hér og verður í endurhæfingu á Selfossi næstu mánuðina.

„Það er venjulega talað um að þú verðir 9-12 mánuði frá þannig að þetta tímabil er farið. Þetta er auðvitað mjög svekkjandi en hann er staðráðinn í að koma sterkari til baka,“ sagði Örn.

Ljóst er að Haukur missir af heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í byrjun næsta árs. Þrátt fyrir að vera aðeins nítján ára hefur hann leikið með íslenska landsliðinu á tveimur stórmótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×