Valskonur féllu á prófinu um síðustu helgi þegar þær töpuðu í annað skiptið í sumar fyrir Breiðabliki í Pepsi Max deild kvenna í fótbolta en Valsliðið skoraði ekki eitt mark í þessum leikjum.
Margrét Lára Viðarsdóttir, sérfræðingur í Pepsi Max mörkum kvenna, þekkir Valsliðið betur en flestir enda var hún fyrirliði þess á síðasta tímabili.
Valsliðið er nú svo gott sem búið að missa Íslandsmeistaratitilinn til Breiðabliks eftir tap í toppslag liðanna um síðustu helgi.
Margrét Lára Viðarsdóttir benti sérstaklega á einn leikmann sem vantaði í Valsliðið í þessum leikjum og lagði áherslu á mikilvægi hennar. Leikmaðurinn er Fanndís Friðriksdóttir sem fór snemma sumars í barnsburðarleyfi.
„Mér finnst umræðan hafa verið alltof lítið um mikilvægi Fanndísar Friðriksdóttur í Valsliðinu. Ég þekki það persónulega því ég hef spilað með henni,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir. Elín Metta Jensen og Hlín Eiríksdóttir eru langmarkahæstu leikmenn Valsliðsins í sumar en þær fundu sig ekki í báðum leikjunum á móti Blikum.
„Í fyrra þá er þetta stelpa sem leggur upp flest mörk í deildinni ásamt Hallberu Guðnýju. Það er gríðarlegur söknuður af henni. Hún er svo mikill töffari að hún mætir í svona leiki og segir: Stelpur sendið á mig og ég skal græja þetta,“ sagði Margrét Lára og tók dæmi frá því í sigri Valsliðsins í deildinni í fyrra þar sem Val endaði með tveimur stigum meira en Breiðablik.
„Hún er ekkert hrædd og það er enginn ótti í henni. Það sýndi sig líka í fyrra því hún skorar mikilvægt mark fyrir okkur á Kópavogsvelli og hún skilur líka á milli þegar við unnum Þór/KA 1-0 fyrir norðan. Hún er svona leikmaður sem tekur svolítið svona leiki og er svona ‚matchwinner' eins og maður segir á enskunni,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir eins og má sjá hér fyrir neðan.