Fótbolti

Glódís Perla: Sáttar með að fá þrjá aukadaga saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir og Elín Metta Jensen fagna marki Söru BJarkar sem var dæmt af í leiknum á móti Svíþjóð.
Glódís Perla Viggósdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir og Elín Metta Jensen fagna marki Söru BJarkar sem var dæmt af í leiknum á móti Svíþjóð. Vísir/Vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur verið við æfingar í Gautaborg síðustu daga en liðið er að undirbúa sig fyrir mikilvægan leik við Svíþjóð í undankeppni EM.

Ísland mætir heimakonum í Svíþjóð einmitt í Gautaborg á þriðjudaginn í næstu viku en þetta er óopinber úrslitaleikur um sigur í riðlinum og um leið sæti í úrslitakeppni EM.

Glódís Perla Viggósdóttir hefur ekki fundið fyrir kórónuveirunni eins og margir leikmenn íslenska liðsins.

Glódís Perla er að spila með Rosengård í sænsku deildinni og þar hafa æfingar og leikir verið í fullum gangi síðan íslenska landsliðið kom síðast saman. Leikmennirnir sem spila heima á Íslandi hafa aftur á móti ekki getað æft neitt saman og hafa þurft að halda sér í formi upp á sitt einsdæmi síðustu vikur.

Knattspyrnusamband Íslands ákvað því að fara þremur dögum fyrr með íslenska liðið út til að stelpurnar heima á Íslandi gætu æft í lengri tíma í aðdraganda leiksins.

„Við erum mjög sáttar með að hafa getað komist aðeins fyrr til Svíþjóðar og fengið aukadaga. Stelpurnar sem eru að koma frá Íslandi hafa ekki getað æft neitt af viti seinustu vikur. Það er því mjög jákvætt að við séum búnar að fá auka þrjá daga,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir í viðtali við Twitter síðu Knattspyrnusambands Íslands.

Íslensku stelpurnar gerðu 1-1 jafntefli við Svíþjóð í fyrri leik þjóðanna á Laugardalsvellinum og áttu alveg eins skilið að fá meira út úr þeim leik. Þær ætla að nýta sér það sem gekk vel í þeim leik.

„Við erum að reyna að skoða leikinn okkar sem við spiluðum við þær heima og taka það úr honum sem gekk vel í lok fyrri hálfleiks og í seinni hálfleik. Við ætlum að reyna að taka það með okkur inn í næsta leik og keyra svolítið yfir það,“ sagði Glódís Perla en það má sjá viðtalsbrotin hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×