Fótbolti

Benzema sagði samherja að gefa ekki á Vinícius Júnior

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karim Benzema fagnar marki sínu fyrir Real Madrid gegn Borussia Mönchengladbach í gær.
Karim Benzema fagnar marki sínu fyrir Real Madrid gegn Borussia Mönchengladbach í gær. getty/Marius Becker

Karim Benzema sagði Ferland Mendy að gefa ekki á Vinícius Júnior í hálfleik í leik Real Madrid og Borussia Mönchengladbach í Meistaradeild Evrópu í gær. Leikar fóru 2-2.

Á myndbandi úr leikmannagöngunum á Borussia-Park heyrðist Benzema hvetja Mendy til að senda boltann ekki á Brassann unga, Vinícius Júnior.

„Ekki gefa á hann. Hann er að spila gegn okkur,“ sagði Benzema við Mendy. Vinícius Júnior stóð rétt hjá þeim.

Mendy gaf boltann aðeins þrisvar á Vinícius Júnior í seinni hálfleiknum þrátt fyrir að spila fyrir aftan hann á vinstri kantinum. Benzema átti hins vegar ekki eina sendingu á Vinícius Júnior í seinni hálfleik og bara þrjár í þeim fyrri.

Gladbach komst í 2-0 með tveimur mörkum frá Marcus Thuram en Real Madrid gafst ekki upp. Benzema minnkaði muninn á 87. mínútu og í uppbótartíma jafnaði Casemiro svo metin, 2-2.

Með markinu í gær varð Benzema aðeins annar leikmaðurinn til að skora á sextán tímabilum í röð í Meistaradeildinni. Hinn er Lionel Messi, leikmaður Barcelona.

Real Madrid er með eitt stig á botni B-riðils Meistaradeildarinnar. Framundan eru tveir leikir gegn Inter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×