Innlent

Gular viðvaranir í gildi á aðfangadag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Gular veðurviðvaranir eru í gildi víða um land á morgun, aðfangadag.
Gular veðurviðvaranir eru í gildi víða um land á morgun, aðfangadag. Veðurstofa Íslands

Gular viðvaranir vegna veðurs taka gildi víða um land á morgun, aðfangadag. Búist er við talsverðri rigningu við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Samhliða má búast við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem hefur í för með sér aukna hættu á á flóðum og skriðuföllum.

Gul viðvörun sökum þessa tekur því gildi klukkan níu í fyrramálið við Breiðafjörð og síðan um hádegisbil við Faxaflóa og á Vestfjörðum og er fólk hvatt til þess að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Þá er einnig varað við hvassviðri á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Gular viðvaranir sökum hvassviðris á þessum svæðum taka gildi síðdegis á morgun og eru í gildi fram á jólanótt eða morgun jóladags.

Þá er enn í gildi óvissustig vegna skriðuhættu á Austurlandi og hættustig vegna skriðufalla á Seyðisfirði. Útlit er fyrir rauð jól víðast hvar á landinu á morgun.

Veðurhorfur á landinu samkvæmt vef Veðurstofunnar

Suðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og bjartviðri, en stöku él vestantil á landinu. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum norðaustantil.

Vaxandi sunnanátt í nótt, víða 13-18 á morgun, en 18-25 m/s norðan- og norðvestanlands seinnipartinn. Rigning um landið sunnan- og vestanvert, en hægari vindur og þurrt á Austurlandi fram á kvöld. Hlýnandi, hiti 4 til 13 stig síðdegis.

Á föstudag (jóladagur): 

Suðvestan 13-18 m/s og él. Rigning í fyrstu A-lands, en styttir upp þar með morgninum. Hiti kringum frostmark.

Á laugardag (annar í jólum):

Fremur hæg norðlæg átt og víða dálítil él, en hvessir síðdegis og bætir í ofankomu NA-til. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×