Innlent

Líklegast að kórónuveiran þróist í vægari gerð sem smitast betur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði, fer yfir líklega þróun SARS-CoV-2 í svari við spurningu á Vísindavefnum sem birtist í dag.
Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði, fer yfir líklega þróun SARS-CoV-2 í svari við spurningu á Vísindavefnum sem birtist í dag. Vísir/Þorbjörn Þórðarson

Erfðafræðingur telur líklegast að SARS-CoV-2, veiran sem veldur Covid-19, muni þróast í átt að vægari gerð sem smitist greiðar en núverandi afbrigði. Slíkar gerðir nái að sýkja fleiri einstaklinga og mögulega smjúga í gegnum sóttvarnir sem virkuðu á upprunaleg afbrigði. Samhæft bólusetningarátak sé lykilatriði til að útrýma veirunni.

Þetta kemur fram í svari Arnars Pálssonar, erfðafræðings og prófessors í lífupplýsingafræði, við Háskóla Íslands við spurningu um þróun SARS-Cov-2.

Átta þróunarbrautir veirunnar

Arnar segir að í upphafi faraldursins hafi SARS-CoV-2-veirurnar allar verið næstum eins, og lítill munur á smithæfni eða alvarleika sjúkdómsins.

Þættir veirunnar á borð við smithættu og alvarleika sýkingar geti svo aukist eða minnkað – en þróun þarfnast breytingar, segir Arnar. Stökkbreytingar muni „hlaðast upp“ svo lengi sem veiran nái að fjölga sér og berast manna á milli. Líklegast sé þó að stökkbreytingarnar skerði hæfni en einhverjar muni samt auka til dæmis smithæfni.

Í ljósi þessa segir Arnar átta þróunarbrautir mögulegar fyrir veiruna og setur fjórar þeirra fram (Mynd C fyrir neðan sýnir þessar brautir):

  1. Aukin smithæfni, en engin breyting á alvarleika einkenna (blá ör) – líklegt.
  2. Aukin smithæfni, aukin alvarleiki einkenna (rauð ör) – ólíklegt.
  3. Aukin smithæfni, vægari einkenni (gul ör) – líklegt.
  4. Minni smithæfni og óbreyttur alvarleiki einkenna (græn ör)– mjög ólíklegt.
Líkön um þróun tveggja eiginleika veirustofns, smithæfni og eiginleika sem hafa áhrif á alvarleika einkenna. A. Upphafsstaða veirustofns rétt eftir að hann hefur „numið land“ í nýjum hýsli. B. Stökkbreytingar sem safnast upp í stofninum munu opna honum leiðir með breytingum í smithæfni eða alvarleika einkenna. C. Fjórar mögulegar þróunarbrautir stofna. Stofnar þróast frá upphafspunkti í átt að öðru ástandi. D. Líklegasta útkoma fyrir flesta veirustofna, að smithæfni aukist á meðan dregur úr alvarleika einkenna. Einnig að erfðabreytileiki innan stofnsins vaxi samfara útbreiðslu hans.

Aukin smithæfni nógu alvarlegt einkenni

Breytingar í átt að verri einkennum segir Arnar ólíklegar þar sem það sé afar sjaldan veirum í hag að drepa hýsla sína, í þessu tilviki mannfólk, hraðar og betur.

„Sennilegast er að þær þróist í þá átt að smitast betur, og að alvarleiki einkenna dvíni þegar frá dregur.“

Arnar bendir að endingu á að erfitt sé að spá fyrir um þróun stofna í framtíðinni. Hinar fjórar kórónuveirurnar sem að jafnaði sýkja fólk valdi allar mildum einkennum en smitist frekar greiðlega.

„Því er líklegast að SARS-CoV-2 muni þróast í átt að vægari gerð sem smitast greiðar en núverandi afbrigði. Vísbendingar eru um að breska afbrigðið af veirunni smitist einmitt greiðar, og mögulega einnig annað afbrigði frá Suður-Afríku,“ segir Arnar.

„Aukin fjölgunargeta eða smithæfni eru nógu alvarleg einkenni í sjálfu sér, því þótt dánartíðni sé svipuð ná slíkar gerðir að sýkja fleiri einstaklinga og mögulega smjúga í gegnum sóttvarnir sem virkuðu á upprunalega afbrigðið. Óskandi er að mannkyninu takist að útrýma veirunni sem veldur COVID-19 með samhæfðu bólusetningarátaki um veröld alla eins og gert var fyrir veiruna sem olli stóru bólu.“


Tengdar fréttir

Öll nema eitt á heimleið frá Póllandi

Öll sem greindust með veiruna á landamærum í dag eru búsett á Íslandi og voru öll nema eitt á heimleið frá Póllandi. Yfirmaður smitrakningateymis almannavarna segir þessar sveiflur á landamærum viðbúnar þegar fólk snýr heim til Íslands eftir hátíðarnar.

Kalla eftir skýrari svörum: Óvissa ofan á alla aðra óvissu

Yfir þrjátíu þúsund manns sem eru sjötíu ára og eldri verða bólusettir næst þar sem sóttvarnalæknir hefur breytt forgangsröðun í bólusetningu. Ungur maður með taugahrörnunarsjúkdóm segir vanta betri skilgreiningu á áhættuhópum enda mikilvægt að eyða óvissu hjá fólki sem hefur verið lengi í einangrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×