Enski boltinn

Viður­kennir að það hafi verið mis­tök að reka ekki Pick­ford út af fyrir brotið á Van Dijk

Anton Ingi Leifsson skrifar
Brotið umdeilda í leik liðanna þann 17. október.
Brotið umdeilda í leik liðanna þann 17. október. John Powell/Liverpool FC

Enski dómarinn Michael Oliver viðurkennir að hann hafi gert mistök með því að gefa Jordan Pickford ekki rauða spjaldið fyrir brot hans á Virgil Van Dijk í leik liðanna í október. Brot sem heldur Hollendingnum frá fótboltavellinum í nokkra mánuði.

Mikið var rætt og ritað um atvikið en Pickford æddi út úr marki sínu og tæklaði Van Dijk. Hollendingurinn var hins vegar rangstæður svo dæmd var rangstaða og enski landsliðsmarkvörðurinn slapp með skrekkinn.

Van Dijk var hins vegar borinn af velli en hann hefur ekkert leikið síðan liðin mættust í október. Það kom síðar í ljós að hann sleit krossbönd en dómari leiksins hefur nú viðurkennt mistök sín.

„Við hugsuðum að þetta gæti ekki verið vítaspyrna ef hann væri rangstæður. Þannig við skoðuðum rangstæðuna og ég sagði við VAR-teymið að ég myndi dæma vítaspyrnu ef þetta væri ekki rangstaða,“ sagði Oliver og hélt áfram.

„Ég hef horft á þetta svo oft. Í raun og veru finnst mér Pickford ekki gera neitt nema reyna breiða úr sér en hann gerir það ekki á réttan hátt, eins og sést í meiðslunum. Við höfum hugsað mikið um þetta og við hefðum átt að dæma rangstæðu og reka Pickford út af.“

„Það sem kom mér á óvart þegar ég horfði á þetta aftur var að enginn leikmaður var að biðja um rautt spjald. Við gleymdum okkur í smáatriðunum í stað þess að hugsa um stóru myndina; sem var að hugsa um brotið líka en ekki bara hvort þetta hafi verið víti.“

„Leikurinn hefði átt að byrja aftur með rangstöðu en með annarri refsingu á Pickford en hann fékk,“ bætti Oliver við.


Tengdar fréttir

Aðgerð Van Dijk gekk vel

Virgil van Dijk er kominn af skurðarborðinu og læknar hans voru ánægðir með árangurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×