„Það voru þrír í bílnum og vegfarendurnir unnu þrekvirki. Þau komu tveimur úr bílnum, konu og barni. Þetta fólk var ekki með góðum lífsmörkum þannig að þeir hófu endurlífgun,“ segir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum.
Klukkutíma eftir útkallið komu viðbragðsaðilar á vettvang. Björgunarbátar mættu frá Bolungarvík og Ísafirði og tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar.
„Þarna sannaði björgunarbátur gildi sitt því að hann kom að aðstoða þennan þriðja sem ekki komst í land og var uppi á þaki bílsins í nokkurn tíma. Björgunarbáturinn gat lagt upp að þaki bílsins og bjargað viðkomandi um borð,“ segir Hlynur.
Segir vegfarendur hafa unnið þrekvirki
Hlynur segir þátt vegfarenda á slysstað hafi verið mikinn. Ekki er ljóst eins og staðan er núna hve langur tími hafði liðið frá því að slysið varð þar til vegfarendur komu að slysstað. Hlynur segir þó að ekki sé talið að þau hafi verið lengi í bílnum.
„Fyrstu tveir komu þarna að og vinna þarna þrekvirki. Svo kemur þriðji þarna að og fjórði og þetta fólk hefur allt staðið sig með miklum ágætum.“

Fjölskyldan, par um þrítugt og ungt barn þeirra, voru flutt á sjúkrahús í Reykjavík.
„Einn þeirra er við ágæta heilsu en hinir tveir eru ennþá undir læknismeðferð í Reykjavík og við vonum bara það besta. Ég vil koma fram þökkum til allra viðbragðsaðila fyrir frækilega vel unna vinnu og ekki síður til þeirra sem komu fyrstir á vettvang og unnu þar þrekvirki,“ segir Hlynur.
Fjölskyldan kom til landsins í nótt og var á leið heim til Flateyrar í sóttkví fyrir síðari skimun. Fimmtíu manns komu að björguninni, átján þeirra hafa verið sendir í sóttkví.
„Við erum að opna sóttvarnahús hérna á Vestfjörðum fyrir þá sem ekki geta verið heima hjá sér. Við erum að vona að morgundagurinn muni leiða það í ljós hvort að nauðsyn sé á að hafa þetta fólk í einangrun lengur,“ segir Hlynur.
Þurftu að færa sig af slysstað til að hringja í neyðarlínuna
Símasamband á slysstað var með verra móti. Hlynur segir brýnt að símasamband á Vestfjörðum sé bætt.
„Þarna kom í ljós, eins og við höfum reyndar bent á nokkrum sinnum, að símasamband er með stopulum hætti í Ísafjarðardjúpi, sem og á nokkrum stöðum á Vestfjörðum. Þarna þurfti fólk að færa sig af slysstað til þess að komast í símasamband. Það er mjög brýnt, öryggisins vegna, að símasamband sé gott á Vestfjörðum eins og alls staðar annars staðar á landinu,“ segir Hlynur.
Einn þessara þriggja er við góða heilsu að sögn Hlyns en hinir tveir eru enn undir læknishöndum.
„Þessir þremenningar voru fluttir suður með þyrlum Landhelgisgæslunnar og einn þeirra er við ágæta heilsu en hinir tveir eru ennþá undir læknismeðferð í Reykjavík og við vonum bara það besta. Ég vil koma fram þökkum til allra viðbragðsaðila fyrir frækilega vel unna vinnu og ekki síður til þeirra sem komu fyrstir á vettvang og unnu þar þrekvirki.“