Innlent

Sér­fræðingar farnir norður og geta metið stöðuna á morgun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Jökulsá á Fjöllum.
Frá Jökulsá á Fjöllum. LÖGREGLAN Á NORÐURLANDI EYSTRA

Vatnshæð í Jökulsá á Fjöllum er enn yfir þröskuldi Veðurstofu Íslands. Vatnshæðin náði hámarki um klukkan tíu í gærmorgun og var þá 530 sentímetrar, eða tíu sentimetrum yfir þröskuldinum. Veðurstofan hefur sent sérfræðinga norður en áætlað er að þeir geti metið stöðuna í ánni á morgun.

Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu. Hann segir vatnshæðina hafa lækkað lítillega síðan þá. Hún standi í 526 sentimetrum.

Varðandi framhaldið segir Einar að vatnsstaðan verði áfram há í ánni. Vel verði fylgst með stöðunni áfram með hjálp vatnshæðar- og óróamæla.

„Við erum í beinum samskiptum við vaktmann vegagerðarinnar á vettvangi og miðlum upplýsingum til hans eins hratt og við fáum þær í hendur, meðan er opið yfir daginn,“ segir Einar en umferð um brúna yfir ánna er stýrt. Þá er vegurinn aðeins opinn í björtu, frá klukkan níu á daginn til klukkan sex að kvöldi.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er unnt að fara um veg 85 á norðausturströndinni meðan lokað er.

Veðurstofan hefur sent tvo sérfræðinga akandi norður í dag og segist Einar telja að þeir muni geta metið stöðuna í ánni í birtingu á morgun, mánudag.

„Það verður frost á svæðinu næstu daga og það er viðbúið að það verði óbreytt ástand í ánni þessa viku og jafnvel næstu viku, jafnvel eitthvað lengur. Við verðum bara að fylgjast vel með og sjá hver þróunin verður,“ segir Einar að lokum.

Hér að neðan má sjá myndband sem Viktor Einar Vilhelmsson tók við Jökulsá í gær og sendi fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×