„Hvað varðar fjármögnum þá er kerfið ekkert mikið sett upp til að vera byggja lengst upp í sveit. Ég er uppalinn í bænum og mér finnst lífið mitt ekkert hafa breyst. Við horfum alveg líka á Netflix á kvöldin, vöknum og fáum okkur kaffi eins og allir aðrir. En í staðinn fyrir að vakna og fara upp á skrifstofu, þá förum við út á jökul,“ segir Árni í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.
„Skriðjöklarnir og Öræfajökull er okkar bakgarður. Það verður ekki mikið betra.“
Þegar maður býr svona afskekkt verða hlutir eins og versla í matinn allt í einu mun flóknari.

„Það eru 130 kílómetrar vestur á Vík og 130 kílómetrar austur á Höfn. Við förum aldrei á Vík, því þá líður manni eins og maður sé að fara í bæinn. Við förum alltaf á Höfn,“ segir Árni.
„Höfn er líka með gott veitingarstaðaúrval og maður getur gert sér svona kaupstaðardag og farið líka út að borða og farið í sund,“ segir Íris.
Þau hjónin stofnuðu fyrirtækið Tindaborg í janúar árið 2020 rétt áður en heimsfaraldur skall á en fyrirtækið sérhæfir sig í fjallaleiðsögn.
„Þessir jöklar gefa manni aukna orku og það er bara ólýsanlegt að vera hér og alltaf jafn gefandi,“ segir Íris en brot úr innslaginu má sjá hér að neðan.