Akureyrar Þórsarar hafa unnið tvo síðustu leiki sína í Domino´s deild karla í körfubolta og þar hefur munað mikið um framlög Bandaríkjamannsins Dedrick Basile og Spánverjans Ivan Aurrecoechea.
Dedrick Basile var með 28 stig, 9 stoðsendingar, 8 fráköst og 4 stolna bolta í sigrinum á Val.
„Dedrick Basile er leikmaður sem fer vaxandi með hverjum leiknum og hann var stórkostlegur á móti Val,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Domino´s Körfuboltakvölds.
Þeir voru að bera saman Dedrick Basile og hjá Hetti sem fór á kostum í sigri á Njarðvík sama kvöld.
„Það er aðeins meiri sprengja og hraði í þessum. Við töluðum um það strax og við sáum hann að við myndum vænta mikils af honum. Bæði þessi lið eru þannig að þau þurfa á svona leikmönnum að halda, leikmanni sem getur verið með boltann í höndum og skilað 25 til 30 stigum í leik, sagði Sævar Sævarsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.
„Þetta eru rosalegar tölur og svo er hann með stóra manninn með sér í Ivan, sagði Teitur Örlygsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.
Spænski miðherjinn Ivan Aurrecoechea var með 29 stig og 15 fráköst í sigrinum á Val og hefur verið með tvennu í öllum sex leikjum sínum á tímabilinu.
„Það eru kannski stór orð en mér finnst þetta vera einn skemmtilegasti og flottasti dúettinn í deildinni. Þeir eru alltaf góðir, sagði Teitur.
Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun Körfuboltakvölds og tvíeykið í Þórsliðinu.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.