Handbolti

Aron með í fyrsta leik eftir HM

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Pálmarsson hefur glímt við hnémeiðsli sem urðu til þess að hann tók ekki þátt í HM í Egyptalandi.
Aron Pálmarsson hefur glímt við hnémeiðsli sem urðu til þess að hann tók ekki þátt í HM í Egyptalandi. Getty/Frank Molter

Aron Pálmarsson verður í leikmannahópi Barcelona þegar liðið mætir hans gamla liði, Veszprém, í stórleik í Ungverjalandi á morgun í Meistaradeild Evrópu í handbolta.

Aron og Króatinn Luka Cindric misstu báðir af HM í Egyptalandi vegna meiðsla en eru í hópnum sem fer til Ungverjalands, samkvæmt frétt spænska blaðsins El Mundo Deportivo.

Aron hefur glímt við meiðsli í hné sem héldu til að mynda aftur af honum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í lok síðasta árs. Meiðsli hans voru mikið í umræðunni eftir að Tomas Svensson, markvarðaþjálfari íslenska landsliðsins, sagði að læknir íslenska liðsins hefði ekki fengið að skoða Aron en sá misskilningur var síðar leiðréttur.

HM lauk á sunnudaginn en álagið á þá sem þar spiluðu minnkar ekki því að Barcelona spilar væntanlega 13 leiki á næstu 33 dögum. Sá fyrsti er gegn Veszprém en liðin eru í efstu tveimur sætunum í B-riðli Meistaradeildarinnar. Barcelona er þó með þriggja stiga forskot.

Barcelona varð fyrir skakkaföllum á HM þar sem þrír leikmenn liðsins meiddust og verða því ekki með gegn Veszprém. Það eru Frakkarnir Dika Mem og Timothey N‘Guessan, og Slóveninn Blaz Janc. N‘Guessan verður frá keppni næstu sex vikurnar en hugsanlegt er að Mem og Janc verði með í heimaleiknum gegn Veszprém sem er 9. febrúar.


Tengdar fréttir

„Haldið þið virkilega að Gummi hefði bara sleppt Aroni?“

„Þetta eru bara fullorðnir menn. Þeir fara yfir málin, þetta er búið og áfram með smjörið. Ég er alveg pottþéttur á því að þannig verður þetta,“ segir Bjarni Fritzson um framtíðarsamskipti Arons Pálmarssonar og Tomasar Svensson.

Logi hefði rekið Tomas Svens­son

Logi Geirsson, fyrrum landsliðsmaður í handbolta, hefði rekið Tomas Svensson úr starfi sínu sem aðstoðarmaður og markmannsþjálfari eftir ummæli hans um fjarveru Arons Pálmarssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×