Í tilkynningu frá borginni segir að hratt hafi verið brugðist við og starfsfólk reksturs og umhirðu Reykjavíkurborgar hafi verið fljótt á staðinn með mengunarvarnabúnað. Búið sé að loka fyrir eins og hægt sé til að koma í veg fyrir að frekari mengun berist í árnar.
Verið er að kanna hvort mengunin hafi áhrif á umhverfið og er sömuleiðis unnið að því að finna uppruna mengunarinnar. Veitur hafa komið borginni til aðstoðar í því en leitin hefur þó engan árangur borið.
Mögulegt er að einhverjir dagar séu liðnir síðan olían barst í fráveitukerfið og hafi ekki borist í árnar fyrr en nú vegna lítillar úrkomu að undanförnu.
Ítrekað er fyrir borgarbúum að afar mikilvægt sé að koma í veg fyrir að mengun berist í árnar og hafi áhrif á viðkvæmt lífríki þeirra. Þá er bent á að ekki eigi að hella efnum í niðurföll eins málningu, þynni, fitu eða olíu. Spilliefni eigi að skila á endurvinnslustöðvar.
Sömuleiðis eigi að láta vita af því ef olía leki af ökutæki eða vinnutæki. Annað hvort Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur eða slökkviliðið svo koma megi í veg fyrir dreifingu mengunarefna.
Ef einhver hefur ábendingar um uppruna lekans sem kom nánar tiltekið úr frárennsli fyrir neðan Árbæjarkirkjusvæðið er viðkomandi beðinn um að hafa samband við Heilbrigðiseftirlitið.