Áfram er þó í gildi óvissustig á Austurlandi vegna hættu á ofanflóðum. Seint í nótt stytti upp og verður úrkomulítið á Austurlandi í dag en áfram verður hlýtt og leysing.
Engin snjóflóð féllu á Seyðisfirði í nótt samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni en ákveðið var að rýma þrjú hús í bænum í gærkvöldi vegna hættu á votum snjóflóðum.
Rýmingin tók gildi klukkan níu í gærkvöldi og náði til fyrrnefndra reita 4 og 6 á Seyðisfirði undir Strandartindi yst í sunnanverðum firðinum.
Á vef Veðurstofunnar segir að vott snjóflóð hafi fallið á þjóðveg 1 úr Grænafelli í Reyðarfirði í gær og lokað veginum.
„Þá féll vott snjóflóð í Seyðisfirði utan þéttbýlis. Krapaflóð féllu í Öræfasveit, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Háspennulína skemmdist innan við Teigarhorn í aurskriðu í gærkvöldi. Viðbúið er að fleiri flóð hafi fallið austan- og suðaustan lands sem koma í ljós þegar birtir í dag,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.