Á morgun verður sýndur á Vísi fyrsti þátturinn í annarri þáttaröð af Skreytum hús. Þættirnir birtast alla miðvikudaga á Vísi og fara samhliða því inn á Stöð 2+ efnisveituna.
„Tökur hafa gengið ágætlega, svona með tilliti til ástandsins og svoleiðis. Það eru alltaf hálfgerðar skoranir þegar maður er að vinna þetta svona á skrítnum tímum. En grímur, fjöldatakmarkanir og Covidpróf eru bara orðin staðalbúnaður,“ segir Soffía og hlær.

„Í þessari þáttaröð sjáum við meðal annars strákaherbergi, sem fjölmargir báðu um, herbergi fyrir tvö börn saman, og svo sjónvarpsrými sem nýtist sem skrifstofa líka - svona til þess að bregðast við breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu.“
Fyrsti þátturinn dettur inn á Vísi í fyrramálið og þar fá áhorfendur að kynnast Rut, sem er nýflutt í nýbyggingu í Úlfarsárdal ásamt fjölskyldunni.
„Við tökum fyrir hjónaherbergið en það var í svona nettri tilvistarkreppu og var eitt af þessum rýmum sem sitja á hakanum, eins og svo oft vill verða með hjónaherbergi. Við setjum svo oft púðrið í að klára stofur og eldhús, og svo auðvitað krakkaherbergin, að hjónaherbergin vilja bara gleymast.“
Soffía segir að það sé ótrúlega gaman að vera komin aftur af stað með Skreytum hús þættina.
„Ég er bara ótrúlega kát og spennt að vera að vinna verkefni með góðu fólki, og finnst bara dásamlegt að hjálpa fólki að láta rýmin þeirra verða enn fallegri og betri, en kannski þeim gat grunað.“
Hægt er að horfa á fyrstu þáttaröðina af Skreytum hús HÉR á Vísi.