Fótbolti

„Þakka guði að vera úti í Svíþjóð þar sem allt er frekar afslappað“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hallbera Gísladóttir er leikjahæst í íslenska hópnum með 117 landsleiki.
Hallbera Gísladóttir er leikjahæst í íslenska hópnum með 117 landsleiki. vísir/vilhelm

Landsliðskonan Hallbera Gísladóttir segist vera sátt að vera úti í Svíþjóð á þessum tíma frekar en á Íslandi þar sem æfingar og keppni í íþróttum eru bannaðar.

Hallbera flutti til Stokkhólms í vetur þar sem hún stundar háskólanám auk þess að spila með AIK í sænsku úrvalsdeildinni.

„Þetta var mjög gott skref fyrir mig að fara út. Það er álag heima að vinna með fótboltanum. Hér hef ég getað sinnt fótboltanum og náminu,“ sagði Hallbera á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í dag. 

„Þetta hefur verið fínt, sérstaklega núna. Ég þakka guði að vera úti í Svíþjóð þar sem allt er frekar afslappað.“

Hallbera og stöllur hennar í landsliðinu eru nú staddar á Ítalíu þar sem þær mæta heimakonum í tveimur vináttulandsleikjum, tíunda og þrettánda apríl. Þetta eru fyrstu leikirnir undir stjórn nýs landsliðsþjálfara, Þorsteins Halldórssonar.

„Það er langt síðan við hittumst síðan og þá gekk mikið á. Það er gott að fá þessa leiki, sérstaklega þar sem við erum með nýtt þjálfarateymi,“ sagði Hallbera.

Aðalkeppinautur hennar um stöðu vinstri bakvarðar í landsliðinu er hin nítján ára Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.

„Hún er frábær leikmaður. Við erum svolítið svipaðar. Hún er framtíðin í þessu liði og við viljum báðar spila. Ég bakka hana upp ef hún verður valin en auðvitað vil ég spila,“ sagði Hallbera sem hefur leikið 117 landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×