Handbolti

Taka leiguflug frá Ísrael til Litáens og spila leikina þrjá á sex dögum

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari og hans menn þurfa að ljúka undankeppni EM með stífri törn.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari og hans menn þurfa að ljúka undankeppni EM með stífri törn. EPAAnne-Christine Poujoulat

Íslenska karlalandsliðið í handbolta neyðist til að spila síðustu þrjá leiki sína í undankeppni EM í þremur löndum á sex dögum. Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur nú staðfest þá ákvörðun sína.

Ísland mun því mæta Ísrael ytra þriðjudagskvöldið 27. apríl, gegn Litáen í Vilnius tveimur dögum síðar, og loks gegn Ísrael á Ásvöllum sunnudaginn 2. maí. Tveir leikjanna áttu að fara fram fyrr í vetur en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði við Vísi að þessi niðurstaða væri svo sannarlega ekki ákjósanleg en að henni yrði að hlíta. 

„Þýðir ekki að berja hausnum við steininn“

HSÍ tók því þá ákvörðun að kaupa leiguflug frá Ísrael til Litáens, og stytta þannig ferðalagið þar á milli úr 20 klukkustundum í fjórar. Strákarnir okkar ættu því að geta æft í Litáen á miðvikudeginum, degi fyrir þann leik sem ætla má að verði erfiðastur leikjanna þriggja.

„Þetta er allt langt frá því að vera ákjósanlegt en það þýðir ekki að berja hausnum við steininn. Þetta er niðurstaðan og við verðum að vinna út frá henni,“ sagði Róbert við Vísi í dag, staddur í Slóveníu þar sem kvennalandsliðið mætir heimakonum í HM-umspili á morgun.

Karlalandsliðið er svo til öruggt um sæti í lokakeppni EM en ekkert má út af bregða ætli liðið sér að enda í efsta sæti riðilsins. Til þess þarf liðið væntanlega að vinna alla þrjá leikina sem eftir eru því annars gæti Ísland tapað kapphlaupinu við Portúgal um efsta sætið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×