Fótbolti

Hefur mætt flestum stærstu stjórunum og enginn þeirra hefur unnið hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Tuchel hefur breytt miklu hjá Chelsea síðan hann tók við á Brúnni.
Thomas Tuchel hefur breytt miklu hjá Chelsea síðan hann tók við á Brúnni. EPA-EFE/Andy Rain

Thomas Tuchel er að gera mjög flotta hluti með Chelsea liðið og liðið hans er í fínum málum eftir fyrri undanúrslitaleikinn á móti Real Madrid í Meistaradeildinni.

Chelsea fór til Spánar og náði 1-1 jafntefli í gær eftir að hafa komist yfir í leiknum. Tuchel var mjög sáttur með að tapa ekki leiknum og að fá útivallarmark í kaupbæti.

Hinn 47 ára gamli Thomas Tuchel tók við Chelsea í lok janúar þegar Frank Lampard þurfti að taka pokann sinn. Chelsea liðið hafði þá tapað fimm af síðustu átta leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni en það varð strax mikil breyting á því þegar Þjóðverjinn tók við.

Chelsea hefur aðeins tapað einum deildarleik af fjórtán síðan Tuchel tók við, liðið er komið í úrslitaleik enska bikarsins og á mjög góða möguleika á því að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Paris Saint-Germain komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar undir stjórn Tuchel á síðustu leiktíð og hann gæti því komist þangað annað árið í röð.

ESPN vakti athygli á því að Thomas Tuchel hafi þegar mætt mörgum af stærstu stjórunum sem knattspyrnustjóri Chelsea og enginn þeirra hefur unnið hann.

Chelsea vann 1-0 útisigur á Tottenham í febrúar (Jose Mourinho).

Chelsea vann 1-0 útisigur á Liverpool í mars (Jürgen Klopp).

Chelsea vann 2-0 heimasigur á Everton í mars (Carlo Ancelotti).

Chelsea vann 1-0 bikarsigur á Manchester City í apríl (Pep Guardiola).

Chelsea vann 1-0 útisigur á Atlético Madrid í Meistaradeildinni (Diego Simeone).

Chelsea vann 2-0 heimasigur á Atlético Madrid í Meistaradeildinni (Diego Simeone).

Chelsea gerði 1-1 jafntefli á móti Real Madrid á útivelli í Meistaradeildinni (Zinedine Zidane).

Það hafa bara tvær knattspyrnustjórar unnið Chelsea síðan að Thomas Tuchel settist í stjórastólinn á Stamford Bridge. Annnar þeirra er Sam Allardyce hjá West Bromwich Albion en WBA vann 5-2 útisigur á Chelsea 3. april.

Hitt tapið kom í seinni leiknum á móti Porto í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar en stjóri portúgalska liðsins er Sérgio Conceicao.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×