Fótbolti

AC Milan lyfti sér upp í annað sæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hakan Calhanoglu skoraði fyrsta mark AC Milan í kvöld.
Hakan Calhanoglu skoraði fyrsta mark AC Milan í kvöld. Francesco Pecoraro/Getty Images

AC Milan tók á móti Benevento í ítölsku deildinni í kvöld. Hakan Calhanoglu og Theo Hernandez sáu til þess að heimamenn tóku stigin þrjú. Niðurstaðan 2-0 og AC Milan lyftir sér upp í annað sæti deildarinnar.

Það tók heimamenn ekki langan tíma að brjóta ísinn. Strax á sjöttu mínútu var Hakan Calhanoglu búinn að skora eftir stoðsendingu frá Alexis Saelemaekers.

Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum, en ekki var meira skorað í fyrri hálfleik. Staðan því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Á 60. mínútu komst Zlatan Ibrahimovic í dauðafæri, en Lorenzo Montipo, markvörður Benevento gerði vel í að verja. Theo Hernandez var þó fyrstur að átta sig og kom boltanum í netið og tvöfaldaði forystu AC Milan.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og AC Milan landaði góðum 2-0 sigri. AC Milan lyftir sér allavega tímabundið upp í annað sæti Serie A, en Napoli, Atalant og Juventus geta öll farið upp fyrir þá með sigrum á morgun.

Benevento er í 17. sæti deildarinnar og þurfa að sækja sér stig í lokaumferðunum til að halda sér uppi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×