„Þetta var skyldusigur. Vörnin var ekki nógu góð og þeir skoruðu alltof mörg mörk. En sóknin var flott og við skoruðum fullt af mörkum,“ sagði Sigvaldi og bætti við að Íslendingar hefðu viljað svara fyrir tapið slæma fyrir Litáum á fimmtudaginn.
„Við vorum svekktir og vildum sýna að erum betri en við sýndum gegn Litáen. Við vildum vinna riðilinn og klára þetta með sóma. Og mér fannst við gera það. Tapið gegn Litáen var ömurlega svekkjandi en ég er sáttur að vinna þennan leik með tíu mörkum.“
Sigvaldi gerði ekki mikið úr eigin frammistöðu í leiknum. „Í sókninni var þetta allt í lagi en ég var ekki sáttur með vörnina þar sem ég gerði alltof mörg mistökum sem ég geri vanalega ekki,“ sagði hann.
Sigvaldi var eini hægri hornamaðurinn í íslenska hópnum í þessari landsleikjahrinu og því mæddi talsvert mikið á honum.
„Það er fínt að fá að spila eins mikið og ég get. Við eigum að vinna alla þessa þrjá leiki án þess að vera með tvo hornamenn. Það var fínt að bæta við nokkrum mörkum með landsliðinu,“ sagði Sigvaldi.
Hann kveðst enn ósáttur við frammistöðu sína gegn Litáen og auðvitað tapið þar.
„Ég er svekktur að vinna ekki riðilinn. Það var skelfilegt að tapa þessum leik. Ég var rosalega pirraður út í sjálfan mig eftir hann. Mér fannst ég rosa lélegur. Ég var ógeðslega svekktur og er það enn. Við eigum að vinna þennan riðil, verandi komnir í þessa stöðu. Við eigum að vinna Litáen alla daga,“ sagði Sigvaldi að lokum.