Handbolti

Ásdís Þóra: Sjúkraþjálfarinn minn hérna heima og sjúkraþjálfarinn úti hafa verið í sambandi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar

Ásdís Þóra Ágústsdóttir, leikamður Vals í handbolta, sleit krossband í leik með 3.flokk á dögunum. Ásdís var nýbúin að skrifa undir tveggja ára samning við sænska liðið Lugi.

„Þetta var bara mikið áfall. Ég fór strax daginn eftir að hitta lækni og sjúkraþjálfara sem sögðu strax að þetta væri krossbandið,“ sagði Ásdís í samtali við íþróttadeild Vísis.

„Það var mjög erfitt að fá þessar fréttir, en ég hélt í smá von þangað til ég fór nokkrum dögum seinna í segulómun og fékk þá staðfest að þetta væri krossbandið sem að var mjög mikið áfall.“

Ásdís er búin að fara í aðgerð og nú tekur við löng endurhæfing.

„Ég er að hitta sjúkraþjálfara og er að gera æfingar daglega til að liðka hnéð betur og hendur og svona svo ég komi sterkari til baka.“

Þrátt fyrir þetta áfall hefur sænska félagið haldið tryggð við Ásdísi.

„Ég átti að fara út í byrjun júlí en fer frekar um miðjan ágúst og held áfam þar í endurhæfingu. Sjúkraþjálfarinn minn hérna heima og sjúkraþjálfarinn úti hafa verið í sambandi og verða áfram í sambandi næstu mánuði svo allir viti hvað eigi að gera.“

Þjálfari Ásdísar hjá Val er Ágúst Jóhannsson, en hann er pabbi Ásdísar. Hún segir að hann sé ekki sami maður heima fyrir og þegar komið er á æfingar.

„Hann er pabbi heima og þjálfari hérna. Hann er alveg á bakinu á mér, en ég veit að það er afþví að hann hefur trú á mér og vill það sem er best fyrir mig.“

Viðtalið við Ásdísi má sjá í heild sinni hér að neðan.

Klippa: Ásdís Þóra



Fleiri fréttir

Sjá meira


×