Í tilkynningu frá fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Suðvesturkjördæmi kemur fram að ákvörðunin um prófkjör hafi verið tekin á Zoom-fundi kjördæmaráðsins í Suðvesturkjördæmi í gærkvöldi.
Nokkrir hafa þegar lýst yfir framboði í prófkjörinu. Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi flokksins í Kópavogi tilkynnti að hún sæktist eftir þriðja sætinu á lista flokksins í gær og um helgina var greint frá því að Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, ætlaði að gefa kost á sér.
Morgunblaðið greindi frá því í morgun að Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, stefndi á annað sætið í prófkjörinu. Þar var ennfremur haft eftir Lovísu Árnadóttur, formanni kjördæmaráðsins, að prófkjörið yrði líklega haldið um miðjan júní en að endanleg ákvörðun um tímasetningu hefði enn ekki verið tekin.