Á sjötta hundrað manns hafa boðað komu sína á mótmælafundinn í dag og rúmlega þúsund til viðbótar lýst yfir áhuga, að því er fram kemur á síðu viðburðarins á Facebook. Ræðumenn á fundinum verða þær Falasteen Abu Libdeh og Rósa Björk Brynjólfsdóttir en fundarstjórn verður í höndum Guðfinns Sveinssonar. Hann segir félagið Ísland Palestínu beina þremur kröfum að íslenskum stjórnvöldum.
„Við viljum að viðskiptabann verði sett á Ísrael þar til að þjóðernishreinsunum í Sheikh Jarrah verði hætt og að linnulausum árásum á Gasa-svæðið linni, sem við erum búin að vera að horfa upp á síðustu daga og að landrán á landi Palestínumanna verði stöðvað og að landinu verði skilað til baka. Þarna er um að ræða landtökubyggðir Ísraels sem öll ríki heims, líklega nema Bandaríkin og Ísrael, eru sammála um að standist alls ekki í alþjóðalög.“
Íslensk stjórnvöld hafi að mati félagsins alls ekki brugðist nógu hart við framgöngu Ísraels á Gasasvæðinu síðustu daga.
„Við sjáum að ríkisstjórnin er gríðarlega klofin í þessu máli. Katrín Jakobsdóttir er með nokkuð innihaldslitlar yfirlýsingar sjálf, hún tekur undir með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og mér finnst það ekki vera nóg,“ segir Guðfinnur.
Hann telur að Íslendingar láti sig nú sérstaklega margir varða átökin á Gasasvæðinu.
„Mér heyrist margir ætla að mæta, fyrir utan það að það er náttúrulega gott veður. Þannig að það verður baráttustemning á Austurvelli, ég hef ekki trú á öðru.“