Þættirnir hafa verið í gangi í Noregi síðan í janúar og hefur Natan flogið í gegn um hverja umferðina á fætur annarri. Nú er aðeins einn flutningur eftir hjá honum, í úrslitunum næsta föstudag, og verður spennandi að sjá hvort Íslendingurinn vinni norsku keppnina.
Áhorfendur hafa nokkuð að segja um hverjir komast áfram í keppninni og hafa þeir getað kosið keppendur á vef sjónvarpsstöðvarinnar TV2. Íslendingar geta líka kosið þar á meðan þátturinn er í gangi.
Í undanúrslitunum í kvöld kepptu sex keppendur um fjögur laus sæti í úrslitunum. Tveir voru sendir heim í kvöld og var Natan sem betur fer ekki einn þeirra.
Dómararnir voru afar ánægðir með flutning kvöldsins og jusu Natan lofi. „Þú ert stjarna!“ sagði norska söngkonan Ina Wroldsen við Natan en hún er ein fjögurra dómara keppninnar.
Hér er hægt að horfa á flutning Natans í kvöld á laginu All I Want.