Innlent

Yndisleg sveitaferð heyrnarlausra barna

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mikil ánægja var hjá krökkunum og starfsfólkinu með sveitaferðina í Myrkholt í Biskupstungum í Bláskógabyggð.
Mikil ánægja var hjá krökkunum og starfsfólkinu með sveitaferðina í Myrkholt í Biskupstungum í Bláskógabyggð. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það var mikil gleði og ánægja sem skein úr hverju andliti þegar ellefu heyrnarlaus börn eða verulega heyrnarskert heimsóttu sveitabæ í Biskupstungum í Bláskógabyggð í vikunni og fengu að skoða lömbin og að fara á hestbak. Bærinn heitir Myrkholt.

Loftur Jónasson og Vilborg Guðmundsdóttir eru bændur í Myrkholti með kindur og hesta, auk ferðaþjónustu. Krakkarnir, sem eru úr Hlíðaskóla í Reykjavík komu í heimsóknina með kennurum sínum og táknmálstúlkum.

„Börnin okkar á táknmálssviði þurfa að fá tækifæri til að hitta dýrin og kynnast kindum og nýfæddum lömbum og haft ró og næði til að kynnast dýrunum, þetta er algjört ævintýri fyrir þau að koma hingað. Það er líka svo mikið vor í lofti hérna og skemmtilegt að koma á bæinn, mjög góð tilbreyting,“ segir Eyrún Ólafsdóttir, grunnskólakennari á táknmálssviði Hlíðaskóla.

Eyrún Ólafsdóttir, kennari á táknmálssviði Hlíðaskóla var alsæl með heimsóknina í Myrkholt.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Krökkunum þótti frábært að komast í sveitaheimsókn, ekki síst að sjá lömbin. Lömbin eru svo sæt

„Mér finnst það ofboðslega skemmtilegt og ég elska dýr og mér finnst svo skemmtilegt að sjá svona mismunandi dýr, þau eru svo loðin og miklar dúllur. Ég myndi svo gjarnan vilja fá að taka eitt með mér heim en ég efast um að það megi,“ segir Amalie Daszkowska, 11 ára nemandi í Hlíðaskóla, sem er alveg heyrnarlaus, alsæl með sveitaferðina.

Amalie Daszkowska, sem vild helst taka eitt lambið með sér heim því henni fannst þau svo krúttleg og sæt.Magnús Hlynur Hreiðarsson
Allir krakkarnir fengu að fara á hestbak en sum þeir höfðu aldrei áður farið á hestbak og hvað þá haldið á lömbum.Magnús Hlynur Hreiðarsson
Sveitaferðin heppnaðist frábærlega.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×