Handbolti

Ómar Ingi magnaður í liði Mag­deburg | Jafnt hjá Alexander og Ými

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ómar Ingi lét til sín taka í kvöld.
Ómar Ingi lét til sín taka í kvöld. Uwe Anspach/Getty

Ómar Ingi Magnússon átti ótrúlegan leik er Magdeburg vann Essen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Þá léku Bjarki Már Elísson, Alexander Petersson, Ýmir Örn Gíslason og Arnar Freyr Arnarsson einnig með sínum liðum.

Ómar Ingi skoraði hvorki meira né minna en 13 mörk af mörkum Magdeburg er liðið lagði Essen 31-26. Níu mörk Ómars komu af vítalínunni en það þarf að nýta blessuð vítaköstin. Gísli Þorgeir Kristjánsson er enn frá vegna meiðsla og lék ekki með liðinu.

Magdeburg situr sem stendur í 4. sæti þýsku deildarinnar með 42 stig.

Bjarki Már var að venju markahæstur í liði Lemgo er liðið tapaði gegn Füchse Berlin. Bjarki skoraði sex mörk í leiknum sem Berlín vann 30-24. Sem fyrr er Lemgo um miðja deild en liðið situr í 11. sæti með 31 stig.

Alexander og liðsfélagar hans í Flensburg töpuðu óvænt stigum í toppbaráttunni en liðið gerði 26-26 jafntefli við Rhein-Neckar Löwen á heimavelli. Alexander var ekki meðal markaskorara Flensburg en Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt marka Ljónanna ásamt því að láta til sín taka í vörn liðsins.

Flensburg er sem fyrr í 2. sæti deildarinnar, með 54 stig, á meðan Löwen er sæti neðar með 43 stig. Flensburg á tvo leiki til góða á Löwen og einn á Kiel sem trónir á toppnum með 57 stig.

Þá vann Melsungen, lið Guðmundar Guðmundssonar, tveggja marka sigur á Ludwigshafen á heimavelli. Lokatölur 25-23 Melsungen í vil en Arnar Freyr komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×