Bláa lónið er aðal styrktaraðili mótsins og býður öll þátttakendum upp á veitingar og í lónið að móti loknu auk þess sem allir verða verðlaunaðir með óvæntum glaðningi.

„Við erum gríðarlega spennt að fá að ræsa hópinn af stað þar sem ekkert mót var í fyrra sökum covid. Stemmingin er einstök í mótinu og skemmtilegt hversu breiður hópurinn er. Hjólreiðafólk af öllum getustigum tekur þátt, elite keppnishjólreiðafólk, vinnustaðahópar, áhugafólk og allt þar á milli. Svo sameinumst við öll í Bláa lóninu eftir mótið og látum átökin líða úr okkur. Það er áskorun en ekki síður afrek, að ljúka hinni 60 kílómetra leið sem liggur frá Völlunum í Hafnarfirði og að Svartsengi í Grindavík. Markmiðin eru misjöfn hjá keppendum, sumir keppast um fyrsta til þriðja sæti en einnig eru margir að keppa við sjálfan sig, ná að hjóla þetta í fyrsta sinn eða keppa við eigin tíma frá því áður. Við skorum á ykkur öll að koma og vera með, það eru enn til miðar svo nú er bara að skrá sig,“ segir Kolbrún Dröfn, formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur.

Hjólreiðafólki verður hleypt af stað í hollum en leiðin liggur frá Völlunum í Hafnarfirði um Djúpavatnsleiðina, í gegnum Grindavík og inn að Bláa lóninu. Leiðin er malbikuð að hluta, en einnig fer hún um grófan malarveg og um ljúfa moldarslóða og sand. Heildar hækkun á leiðinni er um 600 metrar og þar munar mest um Ísólfskálabrekkuna. Þegar þangað er komið er um 40 kílómetrum lokið og því farið að síga í hjá all flestum.

Brautarmet karla er ein klukkustund og 38 mínútur en það er Ingvar Ómarsson Íslandsmeistari í hjólreiðum sem setti það árið 2019 og var meðal hraðinn á honum í brautinni 36,56 km/klst.
Brautarmet kvenna er ein klukkustund og 53 mínúta og er það Karen Axelsdóttir sem á það met frá því árið 2019. Meðalhraði Karenar var 31,6 km/klst.

„Brautarmetin hafa fallið ár frá ári en veður og vindar hafa þó töluverð áhrif á tímann. Það er hins vegar hægt að sjá á þessu að hjólreiðafólk á Íslandi hefur bætt sig töluvert á milli ára og búnaðurinn hefur einnig tekið miklum framförum. Gaman verður að sjá hvernig tímarnir verða í ár og hvort brautarmet verið slegið aftur,“ segir Kolbrún.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar vel valdar myndir frá síðustu keppni.







