Ríkisútvarpið greinir frá og segir að á meðal þeirra sem eiga von á kæru séu blaðamenn, áhrifavaldar og fólk sem sakaði Ingó um refsiverða háttsemi í athugasemdakerfum fjölmiðla.
Aðgerðahópurinn Öfgar birti 32 nafnlausar sögur sem fjölluðu um meint brot Ingó gegn fjölda kvenna. Fjöldi fólks hefur síðan lagt orð í belg á samfélagsmiðlum um mál söngvarans.
Fimm einstaklingar fá að sögn Vilhjálms kröfubréf. Þeir hafi látið ásakanir um refsiverða háttsemi og þar með ærumeiðandi aðdróttanir falla um Ingó, hvort sem það var í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum.
Þessir einstaklingar eru krafðir um að draga ummæli sín um meinta refsiverða háttsemi til baka, biðjast afsökunar á þeim og greiða miskabætur og lögmannskostnað.
„Það er algjört grundvallaratriði að fólk gæti að orðum sínum og brúki lögvarið tjáningarfrelsi sitt þannig að það vegi ekki að friðhelgi einkalífs og æruvernd annarra. Og það er það auðvitað þannig og það er hluti af lýðræðinu og réttarríkinu að þeir sem telja á sér brotið hafa ákveðnar leiðir til að ná fram rétti sínum. Ég tel að dómstóll götunnar, sem þetta er, sé aðför að þeim sáttmála,“ segir Vilhjálmur við RÚV.
Ingólfur Þórarinsson hefur að sögn Vilhjálms hvorki verið kærður né ákærður né dæmdur fyrir hegningarlagabrot, hvað þá heldur fyrir kynferðisbrot.