Handbolti

Norska liðinu hótað sektum og að vera dæmdar úr leik á EM ef þær spiluðu ekki í bikiníi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Norska liðið vildi fá að spila í stuttbuxum á EM kvenna í strandhandbolta en það mæltist ekki vel fyrir hjá skipuleggjendum mótsins.
Norska liðið vildi fá að spila í stuttbuxum á EM kvenna í strandhandbolta en það mæltist ekki vel fyrir hjá skipuleggjendum mótsins. getty/Ilnar Tukhbatov

Norska landsliðinu var hótað sektum og að vera dæmt úr leik þegar það mótmælti klæðaburði á EM kvenna í strandhandbolta.

Samkvæmt reglum þurfa leikmenn á strandhandboltamótum kvenna að klæðast bikiníi á meðan karlar mega klæðast hlýrabolum og stuttbuxum.

Leikmenn hafa lengi verið ósáttir við reglur um klæðaburð á mótum en samt hafa þær ekkert breyst.

Norska handknattleikssambandið hefur verið framarlega í baráttu um að breyta reglunum og fyrir EM óskaði það eftir því að leikmenn fengju að spila í stuttbuxum á mótinu.

Fyrst var norska liðinu hótað sektum, sem það var tilbúið að borga, en fyrir fyrsta leikinn á EM var sektin skyndilega hækkuð og því hótað frekari refsingum, meðal annars að liðinu yrði hent úr keppni. Norska liðið gaf þá eftir enda mikið undir á EM, meðal annars sæti á heimsmeistaramótinu.

„Fyrst í stað var okkur tjáð að hver leikmaður yrði sektaður um fimmtíu evrur fyrir hvern leik sem við vorum tilbúin að borga. Síðan var okkur tjáð að sektin yrði hækkuð og frekari refsingar myndu fylgja. Og skömmu fyrir fyrsta leik var okkur sagt að við yrðum dæmdar úr leik fyrir að spila í búningunum sem við vildum. Við vildum ekki taka þá áhættu,“ sagði Katinka Haltvik, leikmaður norska liðsins.

Kåre Geir Lio, forseti norska handknattleikssambandsins, segir að það hafi lengi talað fyrir daufum eyrum þegar kemur að breytingum á reglum um klæðaburð á mótum.

„Þetta er svo vandræðalegt og vonlaust,“ sagði Lio. Norðmenn fengu Svía, Frakka og Dani með sér í lið og sendu inn beiðni um breytingar á reglunum til EHF, evrópska handknattleikssambandsins. Talsmaður EHF tjáði NRK að málið yrði skoðað en Lio er ekki bjartsýnn á að neinar breytingar verði gerðar á reglunum.

„Við höfum sett okkur í samband við þá og unnið að þessu í nokkur ár. Við höfum vakið athygli á þessu og okkur lofað úrbótum. En samt gerist ekkert. Það er bara sorglegt fyrir stelpurnar að standa í þessu,“ sagði Lio.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×