Fimm gistu fangaklefa eftir meiri háttar átök á staðnum í gær, sem lauk með því að einn mannanna féll í gegnum og braut framrúðu staðarins, með afleiðingum sem blasa við á hægri handlegg mannsins fyrir miðju myndarinnar. Vöðvinn hangir út.
Í auga stormsins situr Jón og ljósmyndin af því fer sem eldur um sinu um samfélagsmiðla. Þar er dáðst að yfirvegun Jóns. Í samtali við Vísi segir hann einfaldlega: „Að sjálfsögðu kláraði ég bjórinn.“
Tengdasonur Jóns, sem tók myndina, var nýkominn út með bjórinn þegar slagsmálin færðust út á stétt. „Ég ætlaði ekki að fara að láta þetta trufla mig,“ segir Jón. „Ég var búinn að vera í golfi yfir daginn og var bara mjög slakur. Ég sat bara sem fastast.“
Stóð mönnum bara á sama? Þetta virðast hafa verið almennileg slagsmál.

„Ég veit ekki um aðra en ég hef nú séð ýmislegt, búinn að vera í slökkviliðinu og flugbjörgunarsveitinni. Ég drakk minn bjór, ég ætlaði ekki að fara að skipta mér af þessu.“
Jón lét sér hvergi bregða og stóð raunar ekki upp á neinum tímapunkti. Hann er staddur í fríi með fjölskyldunni fyrir norðan og verður næstu daga.
Sá sem blæðir úr á miðri mynd er samkvæmt nýjustu upplýsingum enn staddur á sjúkrahúsi. Fimm gistu í fangaklefa samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Eigandi staðarins segir við Vísi að hópurinn sem hafi að lokum endað í slagsmálum hafi verið rólegur framan af en svo hafi átökin magnast og endað með ósköpum.
Íslendingar á Twitter eru heillaðir af stillingu Jóns:
jæja þá er pabbi farinn viral! pic.twitter.com/HDrMIRgGPl
— Sigurjón Jónsson (@siggisorensen) July 20, 2021
Þetta er svo blygðunarlaust fréttamynd ársins.
— Starkaður Pétursson™ (@starkadurpet) July 20, 2021
Hér höfum við eldri mann sem þráði ekkert heitar en að fá einn napran og ráðvandaðan Egils Gull, en nei - einhverjir pattar að norðan þurftu endilega að fleygja sér út um rúðuna í miðjum klíðum og trufla bænagjörðina.
Svei’attann! pic.twitter.com/ue3xF7pZZW
Ég ætla bara að fá að drekka mína pintu. Takk. pic.twitter.com/gx7XkANwXJ
— Jón Kári Eldon (@jonkarieldon) July 20, 2021
— Bragi Valdimar (@BragiValdimar) July 21, 2021