Handbolti

Frá einu stærsta liði Evrópu í Grill 66 deildina

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Nýr þjálfari Þórs á Akureyri.
Nýr þjálfari Þórs á Akureyri. vísir/Getty

Þórsarar virðast stórhuga fyrir komandi keppnistímabil í Grill 66 deildinni en félagið tilkynnti í dag um ráðningu nýs þjálfara. Sá þjálfaði makedónska stórveldið Vardar Skopje á síðasta tímabili.

Greint er frá ráðningu Stevce Alusovski á heimasíðu Þórs í dag.

Þórsarar féllu úr Olís deildinni á síðustu leiktíð og í kjölfarið hætti Halldór Örn Tryggvason þjálfun liðsins eftir að hafa þjálfað það undanfarin tvö ár.

Stevce er 49 ára og átti glæstan leikmannaferil á árum áður; er leikjahæsti landsliðsmaður Makedóníu frá upphafi og einnig sá næstmarkahæsti en handboltagoðsögnin Kiril Lazarov er sá eini sem hefur skorað fleiri mörk en þessi nýi þjálfari Þórs fyrir makedónska landsliðið.

Sem fyrr segir þjálfaði hann síðast makedónska stórliðið Vardar Skopje sem hefur verið eitt besta handboltalið heims undanfarin ár en liðið varð meðal annars Evrópumeistari 2017 og 2019.

Alusovski tók við þjálfun Vardar í ársbyrjun 2020 og stýrði þeim til meistaratitilsins þar í landi í tvígang. Hjá Vardar þjálfaði hann leikmenn á borð við Timur Dibirov, Ivan Cupic og Christian Dissinger.

Hann hafði áður þjálfað RK Pelister, RK Eurofarm Rabotnik í Makedóníu en í sumar missti hann starfið hjá Vardar til Serbans Veselin Vujovic.

Keppni í Grill 66 deildinni hefst þann 24.september og mæta Þórsarar ungmennaliði Vals í 1.umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×