„Ég hafði stundað sund nokkuð reglulega en var orðinn leiður á því að vera alltaf á kafi í vatni þegar ég var að hreyfa mig,“ sagði Sigmundur í samtali við fréttamann Stöðvar 2, sem hélt upp á tind Úlfarsfells í kvöld til að hitta á kappann.
Samtal þeirra má sjá hér að neðan:
Sigmundur hóf ferðir sínar á fjallið árið 2006. Hann ákvað þá að fara hundrað ferðir á ári.
„Síðan hefur þetta undið svona upp á sig. Ég hef verið mjög ánægður að taka þessa ákvörðun. Mér finnst meira gaman að labba upp í móti en að labba á jafnsléttu og mér hefur fundist þetta góð hreyfing,“ segir hann.
„Ég hef notið þess að ganga hérna og ætla að reyna að halda áfram á meðan ég get.“
Er þetta ákveðin keppni eða einhver þráhyggja?
„Það má kannski segja að þetta sé að þróast yfir í svolitla þráhyggju… ég verð eiginlega að viðurkenna það,“ svarar Sigmundur.
„Ég reyni að fjölga ferðum á hverju ári. Ég ætla að vona að ég slái eitthvert met á þessu ári, ef allt gengur að óskum.“