Innlent

Hæg­fara lægðin muni stjórna veðrinu fram í miðja viku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Það hefur víða verið vindur í dag.
Það hefur víða verið vindur í dag. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir að lægðin sem gengur nú yfir landið hafi náð hámarki, en hennar mun áfram gæta í nótt og inn í morgundaginn. Líklegt er að hún muni stjórna veðrinu hér á landi næstu daga.

Þetta segir Haraldur Eiríksson, vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu.

„Veðrið verður væntanlega í svipuðum styrk í nótt. Á morgun gengur þetta smám saman niður og um eftirmiðdaginn er þetta ekkert meira en góður strekkingur,“ segir hann. Litlar breytingar séu þó í kortunum fyrr en á morgun.

Mesti vindstyrkurinn hefur verið á norðanverðu Snæfellsnesi og á Reykjanesskaga, að sögn Haralds. Gular veðurviðvaranir eru í gildi á sunnan og vestanverðu landinu. Haraldur segir um dæmigerða haustlægð að ræða.

„Hún er frekar hægfara og stjórnar veðrinu hérna líklega fram á miðvikudag, svo er einhver lægðagangur út vikuna. En það er ekki spáð neinu í líkingu við þetta, að minnsta kosti ekki næstu vikuna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×