Sumarbústaður listakonunnar í Hvalfirðinum er engu líkur, byggður úr Síberíutré og Kjuregej hefur skreytt hann á ævintýralegan hátt með sérstökum flísum og fleiru sem er alveg einstaklega fallegt.
Risastór heimagerður arinn er í stofunni sem Kjuregej hefur sjálf skreytt.
„Synir mínir gerðu stallinn. Ég fékk vini mína Finn Árnason og Áslaugu Thorlacius mér við hlið og undir minni stjórn eða handleiðslu, gátu þau byggt þetta upp. Ég kláraði svo en þetta tók náttúrulega tíma, þau voru svo elskuleg og falleg,“segir Kjuregej um verkefnið. Sjálf skreytti hún arininn með fallegu mynstri.
Baðherbergið er allt mjög óvenjulegt og Kjuregej hannaði það sjálf. Vala Matt fór í innlit í þennan sérstaka bústað og skoðaði dýrðina.

Svo hitti Vala einnig son Kjuregej, kvikmyndagerðarmanninn Ara Alexander Ergis Magnússon en hann er einmitt að vinna að heimildarmynd um móður sína. Ævintýraheimur sem gaman er að skyggnast inn í.