Handbolti

Neitaði að taka við af Guðmundi

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Guðmundsson og Robert Hedin eru báðir landsliðsþjálfarar í dag. Guðmundur stýrir Íslandi en Hedin Bandaríkjunum.
Guðmundur Guðmundsson og Robert Hedin eru báðir landsliðsþjálfarar í dag. Guðmundur stýrir Íslandi en Hedin Bandaríkjunum. Samsett/Getty

Sænski handboltaþjálfarinn Robert Hedin stendur í framkvæmdum heima hjá sér og ætlar ekki að taka við þýska liðinu Melsungen af Guðmundi Guðmundssyni.

Guðmundur er nýhættur sem þjálfari Melsungen, eftir eitt og hálft ár í starfi, og hefur verið ráðinn þjálfari Frederica í Danmörku. 

Barbara Braun-Lüdicke, stjórnarformaður Melsungen, viðurkenndi að Guðmundur hefði varla getað komið til starfa við verri aðstæður, þar sem að kórónuveirufaraldurinn skall á rétt eftir að hann var ráðinn. Engu að síður þótti ástæða til að skipta Guðmundi út.

Svíinn Robert Hedin var strax nefndur sem líklegasti arftakinn en Hedin er í dag þjálfari norska liðsins Nötteröy og landsliðsþjálfari Bandaríkjanna. Hann hefur nú hafnað boði frá Melsungen:

„Ég fékk tilboð en ég hafnaði því. Tímasetningin hentar ekki. Við erum að endurnýja húsið okkar og það auk starfs konunnar minnar þýðir að þetta hentar ekki núna. Það munar sex mánuðum að þetta henti,“ sagði Hedin við Handsbollskanalen.

„Það er mjög mikill heiður að fá þetta tilboð frá svona frábæru félagi. Það hefði verið mjög gaman að taka þetta að sér og ég er ánægður með að fá fyrirspurina. En mér líður líka vel hér í Noregi,“ sagði Hedin sem stýrði Melsungen á árunum 2007-2009.

Melsungen er nærri botninum í þýsku 1. deildinni með eitt stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar. Liðið hafnaði í 8. sæti á síðustu leiktíð og komst í bikarúrslitaleikinn sem liðið tapaði gegn Lemgo.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×