Tvær íslenskar konur sem slösuðust alvarlega á spænsku eyjunni Tenerife þann 12. september þegar pálmatré féll ofan á þær og þrjár vinkonur þeirra, komu heim í fyrradag.
Slysið átti sér stað á Ameríkuströndinni í bænum Arona á suðvestanverðri Tenerife-eyju um klukkan fjögur síðdegis sunnudaginn 12. september. Toppur pálmatrés hrundi þá skyndilega á fimm íslenskar konur á fimmtugsaldri sem sátu við veitingastað. Þær voru í vinkonuferð í sólinni.
Tvær þeirra slösuðust alvarlega og voru á gjörgæslu á eyjunni þar til þeim var flogið heim í fyrradag með sjúkraflugvél ásamt lækni og hjúkrunarfræðingi að sögn eiginmanns annarrar þeirrar. Hinar þrjár slösuðust minna og komu heim til Íslands í síðustu viku.
Konurnar tvær voru lagðar inn á Landspítala við heimkomuna en þær slösuðust meðal annars á baki og rifbeinsbrotnuðu þegar tréð féll á þær. Eiginmenn þeirra sem flugu út til þeirra eftir slysið komu heim í gær en fá ekki að heimsækja þær fyrr en neikvæð niðurstaða kemur úr PCR- prófi í dag.