Fótbolti

Hoppaði upp á gamlan liðsfélaga í stríðni en fékk rauða spjaldið að launum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luiz Felipe hoppar upp á axlir Joaquin Correa eftir að lokaflautið gall. Hann hefði betur sleppt því.
Luiz Felipe hoppar upp á axlir Joaquin Correa eftir að lokaflautið gall. Hann hefði betur sleppt því. Getty/Matteo Ciambelli

Leikurinn er ekki búinn fyrr en það er flautað af en þá er samt ennþá tími til að fá rauða spjaldið. Því kynntist Lazio maðurinn Luiz Felipe á eigin skinni í Seríu A deildinni í fótbolta um helgina.

Brasilíski miðvörðurinn fékk þá rauða spjaldið eftir lokaflautið í sigurleik Lazio á móti Internazionale.

Það var engin ástæða til að skapa vandræði enda hans lið nýbúinn að landa flottum sigri en stundum taka menn upp á ótrúlegustu hlutum eins og sást í þessu tilfelli.

Fyrir aðeins nokkrum mánuðum voru þeir Luiz Felipe og Joaquín Correa liðsfélagar hjá Lazio og að auki góðir vinir. Í ágúst fór Correa á láni til Inter.

Það gekk vel hjá Correa og félögum í byrjun því þeir komust 1-0 yfir. Lazio tryggði sér hins vegar sigurinn með þremur mörkum frá þeim Ciro Immobile, Felipe Anderson og Sergej Milinkovic-Savic.

Eftir að leiknum lauk þá ætlaði Luiz Felipe greinilega að stríða aðeins gamla liðsfélaganum með því að hoppa upp á axlir hans eins og að þær væru enn samherjar.

Correa tók þessu illa og dómarinn enn verr því hann sýndi Luiz Felipe rauða spjaldið.

Luiz Felipe reyndi að útskýra hegðun sína eftir leikinn.

„Í lok leiksins þá hoppaði ég upp á axlir Tucu því hann er einn af bestu vinunum sem fótboltinn hefur gefið mér. Fjölskyldur okkar eru vinir og við höfum alltaf verið mjög nánir. Ég vildi faðma hann og grínast með úrslitin eins og vinskapur okkar leyfði. Ég varð bara of æstur,“ skrifaði Luiz Felipe á Instagram.

„Eftir á að hyggja var þetta hvorki besti tíminn né rétti staðurinn til slíks. Ég vil biðja alla afsökunar sem ég móðgaði með þessu háttalagi mínu en ég ætlaði aldrei að sína neinum vanvirðingu, ekki honum, ekki öðrum leikmönnum, ekki Internazionale og ekki þeirra ástríðufullu stuðningsmönnum. Þetta var saklaust grín hjá manni sem þykir mjög vænt um Tucu,“ skrifaði Luiz Felipe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×