Sólveig Anna Jónsdóttir tjáði sig í fyrsta skipti um afsögn sína í gær eftir vikuþögn í fjölmiðlum.
Þar talaði hún á svipaðan hátt og Viðar Þorsteinsson, fráfarandi framkvæmdastjóri félagsins, hafði gert í liðinni viku; og gagnrýndi starfsfólk og trúnaðarmenn skrifstofunnar harðlega.
Guðmundur Baldursson, stjórnarformaður Eflingar, gagnrýndi það í kvöldfréttum í gær hve lítið hefði heyrst fá ASÍ og Starfsgreinasambandinu um málið.
Þau þyrftu að taka skýra afstöðu með bæði trúnaðarmönnum og starfsfólki skrifstofunnar.
Þau Drífa Snædal, forseti ASÍ, Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins og Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri þess, hafa þrátt fyrir þetta ekki viljað veita fréttastofu viðtal.
Stjórn Eflingar hefur þá beðið fjölmiðla að láta sig í friði og segist ekki ætla að veita viðtöl á næstunni. Það gildir einnig um nýjan formann eflingar, Agnieszku Ewu Ziółkowsku, sem sagði við fréttastofu fyrir helgi að hún ætlaði ekki að tjá sig um framferði Sólveigar Önnu og Viðars gegn starfsfólki skrifstofunnar.
Tala ekki beint um málið
Drífa snerti þó á hlutverki trúnaðarmanna í vikulegum pistli sínum síðasta föstudag þar sem hún sagði stöðu þeirra almennt erfiða og þeir yrðu að tala máli starfsfólks vinnustaðar síns. Þeir gætu lent á milli steins og sleggju þegar erfið mál kæmu þar upp.
Flosi birti þá pistil eftir sig á síðu Starfsgreinasambandsins í dag þar sem hann virðist svara gagnrýni Sólveigar og Viðars þó hann hafi ekki viljað staðfesta við fréttastofu í dag að orðum hans væri beint sérstaklega til þeirra.
Þar segir hann meðal annars að starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar um land allt eigi ekki skilið að lítið sé gert úr þeirra mikilvægu og góðu störfum og segir svo orðrétt: „Nóg er nú að okkur sótt þótt við tökum ekki þátt í því sjálf".