Um klukkan tólf í dag tók veður að versna á suðvesturhorni landsins og bætti verulega í vind. Vindhraði hefur sums staðar náð fimmtíu metrum á sekúndu í hviðum.
Björgunarsveitir frá Kjalarnesi, Reykjavík, Grindavík, Suðurnesjum, Mosfellsbæ og Hafnarfirði hafa sinnt þónokkrum útköllum í dag að sögn upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
„Í öllum tilfellum er um að ræða foktjón vegna óveðurs, þakklæðningar, girðingar, ruslatunnuskýli, garðskúr og aðrir lausamunir. Vinnuskúr fauk á hliðina í Mosfellsbæ og gámur að fjúka við höfnina í Grindavík,“ segir í tilkynningu.
Þá hvetur Landsbjörg fólk til að fara varlega og vera ekki á ferðinni að óþörfu á meðan mesta veðrið gengur yfir.
Svo virðist sem skilti skyndibitastaðarins Kfc í Reykjanesbæ hafi ekki staðist ágang roksins. Myndband af því má sjá hér að neðan.
Colonel Sanders helvíti flatur á aðventunni pic.twitter.com/RRSP62Z1UF
— Lovísa (@LovisaFals) December 5, 2021
Á samfélagsmiðlinum TikTok má sjá myndband af ruslagámi fjúka utan í bíl.