Einnig verði hryssur framvegis sérvaldar með tilliti til skapgerðar. Þær hryssur sem ekki henti til blóðgjafar verði teknar úr stóðum.
Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, greindi frá þessu í skoðunargrein sem hann birti hér á Vísi í kvöld. Hann hefur ekki viljað veita fréttastofu viðtal frá því að heimildarmynd alþjóðlegu dýraverndunarsamtakanna TSB Tierschutzbund Zurich og AWF Animal Welfare Foundation birtu heimildarmynd um blóðmerahald á Íslandi. Í myndinni má sjá mjög slæma meðferð á hrossunum, þar sem þau eru lokuð inni í þröngri stíu og merarnar meðal annars slegnar og barðar með prikum.
Í grein sinni gerir Arnþór þó lítið úr myndinni:
„Blóðsöfnun á hverjum bæ tekur marga klukkutíma. Myndefni samtakanna sem birt hefur verið sýnir aðeins nokkrar sekúndur og vissulega óverjandi meðferð, sem Ísteka brást við þegar í stað og málið kom upp. Það liggur einnig fyrir að umrædd samtök hafa farið afar frjálslega með ýmsar staðreyndir og hreinar rangfærslur í sumum tilfellum,“ skrifar hann en fer ekki nánar út í hverjar rangfærslurnar séu.
Blóðbændur ósáttir við Ísteka
Blóðbændur hittust á fundi síðasta þriðjudag í Njálsbúð. Öllum þingmönnum Suðurkjördæmis var boðið að sækja fundinn en enginn þeirra mætti nema Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hann sagði hljóðið í bændum á fundinum hafa verið þungt.
Samkvæmt heimildum fréttastofu komu þar fram hve ósáttir blóðbændur væru með að vera allir settir undir sama hatt í allri umfjöllun af málinu. Þeir eru þá líka margir afar ósáttir með öll viðbrögð Ísteka eftir að heimildarmyndin birtist en fyrirtækið sleit viðskiptasambandi við þá bændur sem komu fram í myndinni.
Enginn sem er í forsvari fyrir fyrirtækið hefur veitt viðtöl vegna málsins en í stað þess birt fréttatilkynningar og nú síðast grein Arnþórs.
Mörg hundruð blóðmerar
Ísteka framleiðir frjósemislyf úr merarblóði en lyfið er einkum notað í svínarækt erlendis. Sjálft rekur fyrirtækið þrjár bújarðir þar sem blóðtaka er stunduð og átti 283 hryssur sem voru í blóðtöku á þessu ári.
Fyrirtækið á þá í samstarfi við 119 bændur á landinu um blóðtöku hryssa.
Af grein framkvæmdastjórans má skilja að of mikið hafi jafnvel verið gert úr málinu eftir heimildarmyndina þó vissulega taki Ísteka það alvarlega, enda hafi fyrirtækið slitið viðskiptasambandi við þá tvo bæi þar sem ill meðferð á blóðmerum var sýnd í myndinni, eða þar sem upp hafa komið „frávik frá dýravelferð“ eins og fyrirtækið orðar það iðulega.
„Þjóðfélagsumræðan um frávik á dýravelferð á tveimur bæjum hefur nú að ósekju selt alla bændur búgreinarinnar undir sömu sök. Þrátt fyrir ríkt eftirlit Ísteka með blóðtöku varð umræddra frávika ekki vart í eftirlitinu. Af þeim sökum hefur félagið ákveðið að endurskoða framkvæmdina og auka eftirlitið enn frekar til að fyrirbyggja algjörlega að slíkt geti komið upp aftur,“ skrifar Arnþór.
Þá fullyrðir hann að margítrekaðar rannsóknir á hryssum sýni að blóðgjafir hafi engin neikvæð áhrif á heilsu þeirra og að fyl þeirra þroskist eðlilega og folöldin sömuleiðis. Ísteka hefur þó aldrei birt niðurstöður úr rannsóknum sínum á blóðmerunum.
Strengri reglur úti
Ole Anton Bieltvedt, stofnandi og formaður Jarðarvina, samtaka um dýra-, náttúru- og umhverfisvernd, benti á það í grein á Vísi í dag að almennt blóðmerahald væri ekki stundað í öðrum Evrópulöndum vegna laga um dýravernd og dýravelferð.
Í Þýskalandi sé til dæmis bannað að að framkvæma blóðtöku á hryssu, sem er fylfull eða nýbúin að kasta folaldi og er enn mjólkandi. Slík blóðtaka er stunduð hér á landi.
Einnig eru þar ströng skilyrði fyrir blóðtökum; um að hryssur séu minnst þriggja ára, ekki undir 400 kílóum að þyngd og að ekki sé tekið oftar blóð en á þrjátíu daga fresti.