Innlent

Allra veðra von næstu daga

Árni Sæberg skrifar
Víða á landinu verður hvasst næstu daga.
Víða á landinu verður hvasst næstu daga. Vísir/Vilhelm

Spáð er miklu austan hvassviðri í nótt og verða gular viðvaranir í gildi á Suðausturlandi, suðurlandi og Faxaflóa.

Vindhraði fer í 18 – 25 metra á sekúndu, hvassast verður alveg syðst, einkum undir Eyjafjöllum og í Vestamannaeyjum, þar sem hviður gætu slegið í 28 metra. 

Er fólki sem hyggur á ferðalög á þessum slóðum ráðlagt að huga að veðurútliti áður en það leggur af stað.

Að sögn Marcels de Vries, vakthafandi veðurfræðings Veðurstofu Íslands, nær hvassviðrið hámarki snemma í nótt en fer að dala um klukkan átta í fyrramálið. Gulum viðvörunum verði aflétt á hádegi og annað kvöld ætti allt að vera orðið með kyrrum kjörum.

Þó mun yfirgangandi lægð ekki syngja sitt síðast annað kvöld en von er á miklu hvassviðri á sunnudagskvöld og aðfaranótt mánudags. „Það verður ekki rólegt næstu daga,“ segir Marcel.

Hiti verður á bilinu núll til fimm gráður víðast hvar en frost inn til landsins og á Norðurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×