Nú styttist óðum í Hlustendaverðlaunin 2022 sem fara fram 19. mars næstkomandi. Nýliði ársins er meðal verðlaunaflokka og eru átta hljómsveitir og tónlistarmenn sem keppast um titilinn. Lífið á Vísi ræddi við allt tónlistarfólkið sem var tilnefnt í þessum flokki og fékk smá innsýn inn í sköpunargleði þeirra og tónlist.
Hver eruð þið í ykkar eigin orðum?
Við erum hljómsveitin BSÍ. Silla spilar á trommur og syngur og Julius spilar á bassa. Við kynntumst fyrir fimm eða sex árum, urðum bestu vinir og byrjuðum svo hljómsveitina með það að markmiði að spila á hljóðfæri sem við kunnum ekkert á.
Annars erum við stundum þunglynd en alltaf andfasísk og dönsum gjarnan léttklædd í snjónum, stoppum umferð og elskum tónleika.
Hvenær kviknaði ástríðan fyrir tónlist?
Hjá okkur báðum var það örugglega augnablikið þegar við uppgötvuðum Spice Girls. Algjört lykilatriðið á bernskuárum og mótandi fyrir tónlistar ástríðuna okkar.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna í tónlist?
Allt! Að semja, að taka upp, að spila! Og allt það er sérstaklega gaman þegar man er svo heppin að gera það í hljómsveit sem bestu vinir.
Hvernig hafið þið sem hljómsveit þróast frá því þið komuð fyrst fram?
Við erum svolítið mikið í því að mótþróast, þannig að við eiginlega erum að þróast aftur á bak, að verða verri og verri í því sem við gerum er svona helsta markmiðið okkar!
Hvernig var tilfinningin að fá tilnefningu sem nýliði ársins?
Bara mjög góð tilfinning!