Fótbolti

Roberto Carlos mætti til leiks með ensku bumbuliði

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roberto Carlos stóð við loforð sitt og mætti til leiks með bumbuliðinu Bull in the Barne á Englandi.
Roberto Carlos stóð við loforð sitt og mætti til leiks með bumbuliðinu Bull in the Barne á Englandi. Nick Potts/PA Images via Getty Images

Árið 2002 varð Roberto Carlos heimsmeistari með brasilíska landsliðinu í fótbolta, en í gær þurfti hann að sætta sig við tap með bumbuliðinu Bull In The Barne FC frá Shropshire á Englandi.

Bull in The Barne liðið tók þátt í happdrætti á eBay fyrr á árinu þar sem vinningurinn var ekki af verri endanum. Liðið borgaði 5 pund fyrir miðann og í staðin fengu þeir brasilísku goðsögnina Roberto Carlos í lið með sér.

Carlos mætti svo loksins í gær og kom inn á sem varamaður fyrir liðið. Liðsmenn Bull in the Barne þurftu að sætta sig við 4-3 tap í vináttuleik gegn Harlescott Rangers, en Brasilíumaðurinn skoraði eitt marka liðsins af vítapunktinum.

Þessi fyrrverandi bakvörður Real Madrid hefur líklega leikið við betri aðstæður. Völlurinn var kannski ekki í líkingu við Santiago Bernabéu þar sem Carlos vann á sínum tíma spænsku deildina fjórum sinnum og Meistaradeild Evrópu þrisvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×