Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið einn í meirihluta í Garðabæ svo lengi sem elstu menn muna. Það er því líklegt að verið sé að kjósa um næsta bæjarstjóra Garðbæinga í prófkjörinu.
Þegar búið er að telja um helming atkvæða er Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Garðabæjar, í efsta sæti með 437 atkvæði í fyrsta sætið. Almar Guðmundsson er í öðru sæti en aðeins munar tíu atkvæðum á Áslaugu Huldu og Almari í baráttunni um fyrsta sætið, Almar er með 427 atkvæði í fyrsta sæti en 629 atkvæði í 1.-2.sæti.
Sigríður Hulda Jónsdóttir er í þriðja sæti en ásamt Áslaugu Huldu og Almari bauð hún sig fram í oddvitasæti listans. Sigríður Hulda er með 405 í fyrsta sætið þannig að afar litlu munar á frambjóðendunum þremur.
Fram kom í máli Hauks Þórs Haukssonar, formanns kjörstjórnar, að búast mætti við næstu tölum eftir um eina og hálfa klukkustund.
Tilkynnt var um niðurröðun í fyrstu átta sæti listans eins og staðan er núna. Sjálftæðisflokkurinn fékk átta bæjarfulltrúa í síðustu kosningum.
1. Áslaug Hulda Jónsdóttirr
2. Almar Guðmundsson
3. Sigríður Hulda Jónsdóttir
4. Björg Fenger
5. Gunnar Valur Gíslason
6. Margrét Bjarnadóttir
7. Hrannar Bragi Eyjólfsson
8. Stella Stefánsdóttir