Grínistinn Sóli Hólm er einn vinsælasti skemmtikraftur og eftirherma landsins. Hans betri helmingur, Viktoría Hermannsdóttir, er fjölmiðlakona og hefur starfað á RÚV undanfarin ár. Hún hefur meðal annars stýrt þáttunum Hvunndagshetjur sem nutu mikilla vinsælda.
Þau Sóli og Viktoría voru gestir í 48. þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása sem hóf göngu sína síðasta vor. Umsjónarmaður þáttanna er Ásgrímur Geir Logason. Hann fær til sín þjóðþekkta einstaklinga ásamt þeirra betri helming og ræðir um ástarsambandið, lífið og tilveruna.
Trúir því að ömmur þeirra hafi leitt þau saman
Í þættinum segja þau frá því hvernig þau kynntust árið 2016 á þeim tíma sem Sóli vann á RÚV. Viktoría var nýhætt sem ritstýra Helgarblaðs Fréttablaðsins og var á þessum tímapunkti ekki byrjuð á RÚV.
„Ég féll fyrir atvinnulausri konu, sem sýnir okkur það að ég féll fyrir henni bara af mannkostunum. Ég var ekki að horfa í launin,“ segir Sóli í gríni.
Hann segir Viktoríu hafa tekið fyrsta skrefið en bætir því þó við að hann hafi gengið á eftir henni með grasið í skónum.
„Þetta byrjaði bara sem spjall á Facebook. Ég held að samband okkar hafi mótast svolítið þar til að byrja með. Þetta gerðist mjög hægt, þetta var löng fæðing. Ég trúi ekki mikið á yfirnáttúrulega hluti en síðar kom í ljós að ömmur okkar sem eru báðar látnar, þær voru æskuvinkonur. Í svona fallegustu pælingunum mínum þá vil ég meina að þær hafi svolítið leitt okkur saman,“ segir Sóli.
Hittust fyrst í sundi
Fyrsta stefnumótið var svo með óhefðbundnu sniði en þau ákváðu að hittast í sundi í Seltjarnarneslaug. Eftir það hittust þau svo nokkrum sinnum í sundi áður en Sóli bauð Viktoríu á rúntinn.
Þau hlustuðu á Mannakorn og ætluðu því næst að fara á Kringlukránna þar sem Geirmundur Valtýsson var að spila.
„En það kostaði inn og ég var ekki alveg að nenna að fara borga mig inn á ball þegar við ætluðum bara að setjast inn og spjalla, sem er reyndar mjög fyndið eftir á. Við hefðum allan daginn bara átt að borga okkur inn.“
Þrátt fyrir að hafa misst af Geirmundi varð þetta kvöld í september þeim þó eftirminnilegt þar sem þau áttu fyrsta kossinn. Nokkrum mánuðum síðar voru þau búin að kaupa sér hús saman.
„Þetta var svo náttúrulegt. Þegar við ákváðum að kaupa hús þá leið mér aldrei eins og það væri eitthvað óeðlilegt. Ég hef aldrei hugsað að nú þurfum við aðeins að bremsa,“ segir Sóli.
Öðluðust nýja lífssýn eftir krabbameinið
Tveimur mánuðum eftir að þau fluttu inn saman greindist Sóli með krabbamein.
„Það er svolítið óraunverulegt að þetta hafi gerst. Auðvitað gekk þetta allt rosalega vel. Það var auðvitað sjokk að fá krabbamein en svo tók bara við lyfjameðferð og allt sem þarf að gera. Það var aldrei neitt bakslag heldur gekk frekar bara betur en það átti að gera. Við þroskuðumst bæði rosalega mikið á þessu og öðluðumst nýja lífssýn.“
„Þó svo ég hafi ekki verið í lífshættu þá komst ég í meiri snertingu við dauðleikann og það er bara þroskandi. Ég var náttúrlega ótrúlega heppinn og því miður eru ekki allir svona heppnir sem greinast með krabbamein.“
Sóli ákvað að tala opinskátt um sín veikindi alveg frá upphafi. Hann tók sjálfur eftir því að lítið sem ekkert var um jákvæðar frásagnir af fólki sem hefur greinst með krabbamein.
„Ég ákvað aldrei að vera jákvæður, ég bara varð það. Þess vegna get ég ekkert sagt fólki að vera jákvætt, ef þér líður illa þá bara líður þér illa. Jákvæðnin kom bara svolítið náttúrulega hjá mér og ég held hún sé bara svolítið í mínu eðli,“ segir Sóli.
Viku og viku fyrirkomulag besta fyrirkomulagið
Saman eiga þau Viktoría og Sóli tvö börn, en þau áttu bæði börn úr fyrri samböndum. Aðra hvora viku eru þau því sjö manna fjölskylda.
„Um leið og maður er búinn að venjast því að vera ekki með börnunum sínum alltaf, þá er þetta viku og viku fyrirkomulag eiginlega bara besta fyrirkomulagið,“ segir Sóli.
Sameining fjölskyldunnar gekk vel þó svo það hafi komið upp árekstrar á milli yngri barnanna.
„Það er aldrei auðvelt að setja saman svona fjölskyldur en það þarf ekkert að vera neitt ógeðslega erfitt heldur. Það þarf ekkert að gera svona mikið mál úr þessu eins og sumir gera.“
Þá tala þau einnig um mikilvægi þess að foreldrar og stjúpforeldrar sýni hver öðrum virðingu.
„Ég er ekki að reyna að vera mamma strákanna. Ég er til staðar fyrir þá en þeir eiga mömmu. Sóli er ekki að reyna vera pabbi hennar Birtu. Maður þarf bara að leyfa öllum að vera. Það fara svo margir í það að ætla vera fullkomin fjölskylda en það er ekkert þannig. Fjölskyldur eru bara alls konar,“ segir Viktoría.

Misstu af fluginu frá París
Í þættinum segja þau frá því þegar Sóli ákvað að bjóða Viktoríu í óvissuferð fyrir fjórum árum síðan. Þau fóru til Parísar og áttu sannkallað draumafrí.
„Nema hvað að þegar við förum út á völl þá sjáum við flugrútu og förum af stað. Hún var svolítið hæg og ég var með allt inni í Maps og mér fannst þetta eitthvað skrítin leið sem hann var að fara,“ segir Sóli sem áttaði sig svo á því að rútan var alls ekki að fara á réttan flugvöll.
Þarna áttuðu þau sig á því að þau væri að fara missa af fluginu sínu og myndu þurfa að kaupa sér nýja flugmiða heim.
„Þarna í rútunni þar sem við erum á leiðinni á vitlausan flugvöll þá fæ ég bara skilaboð frá WOW Air hvort ég sé tilbúinn að lýsa einhverri hjólakeppni, Cyclothon og mæta klukkan sex um morguninn og hvað ég myndi taka fyrir það. Ég segi bara „heyrðu ég er til í að fá tvo flugmiða frá París til Íslands“. Þetta var æðisleg redding og við vorum bara eina aukanótt.“
Sóla fannst þó að hann þyrfti að bæta Viktoríu upp fyrir þetta klúður. Hann ákvað því að gera ferðina ennþá eftirminnilegri með því að biðja hennar.
Hér að neðan má hlusta á viðtalið við þau Sóla og Viktoríu í heild sinni.