Melander starfaði á ferli sínum sem leikari, blaðamaður, uppistandari og þáttastjórnandi og skipaði sér sess sem einn ástsælasti skemmtikraftur landsins.
Melander fæddist í Malmö 1947 og menntaði sig til verkfræðings þó að hann hafi fljótt ákveðið að leggja ekki verkfræðina sérstaklega fyrir sig. Hann hóf þá nám í blaðamennsku og starfaði sem blaðamaður á Aftonbladet um margra ára skeið, að því er segir í frétt SVT.
Sumarið 1979 kynntist hann svo fyrir tilviljun leikaranum og skemmtikraftinum Lasse Åberg í partýi og árið 1980 bauð Åberg Melander að fara með hlutverk hins drykkfellda Bertil „Berra“ Olsson í gamanmyndinni Sällskapsresan.
Árið 1985 sagði hann skilið við blaðamennskuna og hóf þá farsælan feril sem skemmtikraftur í sjónvarpi.
Naut hann meðal annars vinsælda vegna frammistöðu sinnar í þáttunum Nöjesmassakern og svo sem „Steve med Lloyden“ í þáttunum Tack för kaffet.